„Ríkisstjórnin hefur fyrir löngu gefið málefni „flóttamanna“ frá sér í hendur sérlegra áhugamanna um þann málaflokk og hafa fyrir löngu misst tök á málinu, sem hefnir sín núna. Það er búið að reyta upp hvern kima til þess að bregðast við. Stöðva verður þennan flaum, ekki síðar en strax, og taka hann úr höndum áhugamanna og sérvitringa,“ er skrifað í Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, sem einkum eldri borgarar eru áskrifendur að.
Ætla má að Davíð Oddsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins, haldi þarna á penna, ekki síst þar sem greining höfundar á ástandinu í Bandaríkjunum er í takt við málflutning Donald Trump, en Davíð er eldheitur aðdáandi og stuðningsmaður Trump.
„Bandaríkin engjast öll vegna „löglausra“ flóttamanna í tíð Joes Bidens og verður það mál forsetanum erfitt í haust. Það mál hefur aldrei farið svo mjög úr böndunum þar vestra eins og nú,“ stendur í Reykjavíkurbréfinu. „En miðað við íbúafjölda á hvorum stað munar furðulitlu. Það er enginn slíkur straumur með flugvélum vestur. Ekki neinn. Það er aðeins á suðurlandamærum, þar sem vaða má yfir ár, úr Suður- og Mið-Ameríku og inn í Bandaríkin. Flugfélögin eru sektuð vestra flytji þau „flóttamenn“. Það er ekki gert hér og vekur furðu. Við álpuðumst í Schengen-samstarfið. Það voru meginmistök. Um það var ágreiningur í ríkisstjórn, en tveir fagráðherrar þar lögðu á það ofurkapp. Svo kom á daginn hvað að baki bjó. Þessir tveir áttu leynda drauma um að þrengja Íslandi inn í ESB hveð sem tautaði og raulaði.“
Ísland gekk í Schengen 1996, í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem Davíð leiddi. Í þeirri ríkisstjórn var Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherrarnir. Þetta virðast vera þeir sem blinduðu Davíð, samkvæmt Reykjavíkurbréfinu, svo hann fattaði ekki hvað Schengen var.
„Danir voru komnir í ógöngur, en höfðu manndóm til að streitast á móti,“ heldur Reykjavíkurbréfið áfram. „Svíar eru í hreinum ógöngum sem þeir munu lengi súpa seyðið af. Bretar hafa einnig misst sín tök og berjast um að fá málið lagfært. En Frakkar, í hefndarskyni vegna Brexit-útgöngu Breta, gera ekkert til að stemma stigu gegn því að „bátaflóttamenn“, sem glæpaklíkur stjórna, leggi yfir Ermarsundið og það þótt fjöldi manna hafi farist í þessum leiðöngrum. Í nágrannaríkinu Írlandi, sem er lítið land og fámennt, eru íbúar í bænum Rosslarce Harbour komnir með upp í kok. Þegar fjórða hótelið í bænum var tekið undir flóttamenn brugðust þeir loks við. „Nú er komið nóg.“ Írland hefur tekið á móti 100 þúsund flóttamönnum frá Úkraínu einni! Þeir sem andæfa því hvernig komið er og hvetja til stillingar vonast til að hófstillt kjörorðið: „Nú er komið nóg“ dugi til þess að ríkisstjórnin, sem misst hefur vitið í þessum efnum, finni að minnsta kosti brot af því aftur.“
Höfundur bréfsins virðist því vera að leggja til að hætta verði að taka við flóttafólki frá Úkraínu, að landinu verði lokað. „Ekkert bendir hins vegar til þess að íslensk yfirvöld sjái að sér, áður en það verður um seinan. Það er af mörgum talin meginástæða þess, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur vindinn í fangið um þessar mundir og er hann smám saman að breytast í storm,“ endar höfundur sitt Reykjavíkurbréf.