Óhætt er að segja að ummæli Atla Þórs Fanndal, framkvæmdastjóra Íslandsdeildar Transparency, hafi vakið blendin viðbrögð síðustu daga.
Framkvæmdastjórinn lét þau orð falla um Kolbrúnu Bergþórsdóttur blaðamann Morgunblaðsins eftir að hún kom Bjarna Benediktssyni til varnar vegna Palestínumálsins, að Kolbrún hefði með stuðningi sínum við valdsmanninn verið með enn eina rassasleikjuna.
„Kolbrún hefur alltaf verið mykjumokari fyrir elítuna. Hún er sjálf að kafna úr snobbi og hefur alltaf sótt sín áhrif í nálægðina við valdið. Smásál sem heldur að ef hún fái stundum bros frá ríku strákunum þá sé hún inn. Það eina sem hún þarf að gera er að tala niður til eigin samfélags; aftur, aftur, aftur og aftur,“ skrifaði Atli Þór.
Hann bætti svo um betur og sagði að Kolbrún væri komin með hrúður á tunguna eftir rassasleikingar.
Illugi Jökulsson, þriðji blaðamaðurinn í snerru Atla Þórs og Kolbrúnar tekur undir með Atla að pistill Kolbrúnar hafi verið vondur.
En fjórði blaðamaðurinn, Egill Helgason, segir:
„Það er hægt að tjá sig án þess að viðhafa svo ömurlegt orðfæri. Atli, þú rýrir Transparency trausti með þessu.“
Atli fór ítarlega yfir vaxandi spillingu á Íslandi í sjónvarpsþætti Samstöðvarinnar í gærkvöld eins og má sjá hér: Rauða borðið 30. jan – Spilling, Kína og hinir fátæku sem munu landið erfa (youtube.com)