Utanríkisráðherra Bjarni Benediktsson hefur með facebook-færslu sinni þar sem hann lýsir tjaldbúðum á Austurvelli sem hörmung sem losna ætti við í skyndi, vakið gríðarlega reiði meðal margra Íslendinga.
Eiríkur Rögnvaldsson íslenskufræðingur sem ekki er vanur að taka stórt upp í sig um ráðamenn vandar Bjarna ekki kveðjurnar á facebook.

„Þetta er maðurinn sem olli þjóðinni ævarandi skömm með því að neita að greiða atkvæði með tafarlausu vopnahléi á Gaza. Þetta er maðurinn sem spurði „hvaða árás?“ þegar Ísraelsmenn réðust á flóttamannabúðir á Gaza. Þetta er maðurinn sem fæddist með silfurskeið í munni, maðurinn sem seldi í sjóði 9 á hárréttum tíma, maðurinn sem fékk hundruð milljóna afskrifaðar í hruninu, maðurinn sem seldi pabba sínum banka – valdamesti maður á Íslandi undanfarinn áratug,“ segrir Eiríkur um Bjarna.
„Nú ræðst hann gegn örvæntingarfullu fólki sem reynir að brýna íslensk yfirvöld til aðgerða á meðan ættingjar þess eru brytjaðir niður á Gaza. En það eina sem Bjarni hugsar um er að hann og félagar hans þurfi ekki að horfa upp á fólkið fyrir framan sig, hvað þá palestínska fánann, þegar þingið kemur saman. Í leiðinni notar hann tækifærði til að hnýta í Reykjavíkurborg. Það hefur sjaldan sést jafnmikill skortur á samúð, samkennd og virðingu fyrir fólki og í þessari fyrirlitlegu færslu,“ segir Eiríkur.
Margir lýsa svipaðri skoðun og er Bjarni sagður hafa slegið met í rasisma.