Skúli Sigurður Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju, skefur ekki af því í ritrýndri grein hjá Guðfræðistofnun, sem hann kallar Stjórnsýsla án hliðstæðu. Greinin varðar gjörðir og rekstur Agnesar M. Sigurðardóttur biskups.
Skúli ræðir í greininni valdsvið biskupsembættisins 2011 til 2021. Með lögum frá 1997 fékk kirkjan aukin völd frá ríkinu. Áður hafði Alþingi hlutast til um innri mál kirkjunnar með lögum og reglugerðum.
Árið 2011 sendi Ríkisendurskoðun frá sér skýrslu. Þar var bent á alvarlega annmarka sem fylgdu því fyrirkomulagi sem komst á í kjölfar laganna. Megingagnrýnin fólst í stöðu biskups og sagði í skýrslunni:
„Hann var andlegur leiðtogi en sem forseti kirkjuráðs hafði hann fjárhags- og framkvæmdavald innan kirkjunnar. Sem slíkur hefði hann of víðtækt valdsvið og sinnti fleiri verkefnum en eðlilegt gæti talist.“
Skúli fer mörgum orðum um vondan rekstur á tímabilinu, árekstra við Krikjuþing, erfið samskipti og afleitar ákvarðanir. Hann segir að samanlagður hallarekstur kirkjunnar hafi verið yfir sjö hundruð milljónum að núvirði á þessum áratug. Stór hluti tapsins hafi tengst flutningi Biskupsstofu. Hann nefnir ýmis dæmi máli sínu til stuðnings og skrifar:
„Á hverju ári á þessu tímabili hafa jarðir og fasteignir verði seldar úr eigu kirkjunnar og hafa eignir hennar því fyrir vikið minnkað jafnt og þétt.“
Skúli kemst að þeirri niðurstöðu að eignasafn kirkjunnar árið 2021 hafi aðeins verið aðeins helmingur af því sem það var árið 2011. Mistök og margvísleg vanræksla hafi einkennt strf Agnesar biskups sem ekki hafi axlað ábyrgð.
„Sú afstaða að kirkjunni sé best borgið í því ólýðræðislega kerfi sem hefur verið við lýði síðastliðinn áratug stenst ekki skoðun, sé litið til þess hvernig rekstrinum hefur verið háttað á þessu tímabili.“
Agnesi biskupi ber því nú að líta líta í eigin barm að mati Skúla og er ekki að efa að innlegg hans verður tilefni til mikillar umræðu í aðdraganda biskupskjörs. Rannsaka verður að sögn Skúla hvernig þjóðkirkjunni hefur verið stjórnað. Í því samhengi nefnir hann orðið „óttastjórnun“.
„Engin ríkisstofnun hefði komist upp með að sniðganga tilmæli Ríkisendurskoðunar með þeim hætti sem kirkjuyfirvöld gerðu,“ segir í grein Skúla. Hana má lesa í heild hér: Skoða Stjórnsýsla án hliðstæðu (hi.is)