Flest bendir til að eitt mesta þrumuveður sem gengið hefur yfir höfuðborgina eigi sér nú stað. Í miðbæ Reykjavíkur liðu á sjöunda tímanum aðeins nokkrar mínútur milli eldinga þegar tíðast var. Þær hafa verið mikið sjónarspil, lýst upp borgina og fylgja háværar þrumur.
Eftir því sem fram kemur hjá Rúv hafa íbúar haft samband við Veðurstofu og spurt hvort hávaðinn í þrumunum sé jarðskjálftagnýr. Svo er ekki. Mörgum virðist ekki hafa orðið svefnsamt síðan hvassviðri skall á með úrkomu.
Á vísindavefnum segir að þrumuveður sé sjaldgæfara á Íslandi en í öðrum löndum vegna þess að stöðugleiki lofts sé að jafnaði meiri hér á landi en á suðurslóðum.
Þrumuveður myndast í stórum skúra- eða éljaklökkum sem oft eru kallaðir þrumuklakkar eða þrumuský. Langflest þrumuveður hingað til hér á landi hafa verið minniháttar. Nokkrir hafa látist í þrumuveðri hér á landi síðan land byggðist.
Tölvu- og fjarskiptabúnaður er mjög viðkvæmur fyrir snöggum rafsviðsbreytingum. Tjón á slíkum búnaði hefur orðið hér á landi. Hætta er á að rafmagni slái út.