Valdmörk kennara gagnvart skólabörnum eru á reiki, meðal annars vegna aukinna ítaka foreldra í skólalífi nemenda. Þetta segir Sigríður Nanna Heimisdóttir, aðstoðarskólastjóri Hagaskóla, sem ræddi áskoranir í skólastarfi í sjónvarpsþættinum Maður lifandi á Samstöðinni í gær.
„Við vitum ekki hver ræður,“ sagði hún. „Grunnskólakerfið er í tilvistarkreppu.“
Agavald kennara var eitt sinn óumdeilt í skólastofum. Fyrir tveimur áratugum eða svo var kallað eftir auknu samstarfi skólanna við foreldra. Röddum heimila óx ásmegin innan veggja grunnskólanna. Því fylgdi jákvæður ávinningur en ögrandi atriði í Áramótaskaupinu vakti spurningar um mörk og stöðu kennara.
„Ég held þetta hafi þróast þannig að það varð óljóst hvar mörkum foreldranna sleppti,“ segir Sigríður Nanna. „Við erum komin í þann fasa núna að barnið siðar kennarann til ef barninu er misboðið.“
Gefa þarf valdmörkum, skipulagi og gæðum menntunar aukinn gaum að sögn Sigríðar Nönnu. Vellíðan barna þurfi að vera í aðalhlutverki, margt gott sé í skólastarfi svo sem gagnkvæm virðing í flestum tilvikum milli barna og kennara. En eitt meginverkefnið nú sé að auka traust milli skóla og heimila.
Fram kom í Maður lifandi að skólabörn geta orðið ólíkleg til að lúta aga kennara ef þau líta á hann sem þjónustufulltrúa.
Sjá umræðu hér í þættinum um skólamálin á 35. mínútu: Maður lifandi, 3. jan – Ungt fólk á Gasa og agavandi í skólum (youtube.com)