Landsvirkjun hefur sent stórnotendum á suðvesturhluta landsins ósk um viðræður þar sem orkufyrirtækið vill reyna að kaupa raforku til baka sem ráðstafað hefur verið samkvæmt samningum. Beiðnin er óvenjuleg og spyr spurninga um gerða samninga.
Endurkaup eru eftir því sem fram kemur í auglýsingu Landsvirkjunar „síðasta og dýrasta úrræði Landsvirkjunar“. Fyrirtækið fer þennan bónarveg nú til að verjast lágri stöðu miðlunarforðans og ekki í fyrsta skipti.
Fyrir nokkrum vikum tilkynnti Landsvirkjun stórviðskiptavinum sínum að skerða þyrfti orku til starfsemi þeirra. Skerðingarnar hófust síðastliðinn föstudag. Gert er ráð fyrir að þær geti staðið allt til 30. apríl en veltur þó á vatnsbúskap á tímabilinu.
Áður hafði verið gripið til takmörkunar á víkjandi orku til fiskimjölsverksmiðja og fiskþurrkana, sem og gagnavera sem stunda rafmyntagröft. Innrennsli til miðlana og aflstöðva Landsvirkjunar er í algjöru lágmarki.
Óvíst er hvaða árangri það skilar að Landsvirkjun óski eftir viðræðum hvort stórnotendur sjái sér fært að draga saman í starfsemi um tíma og endurselji Landsvirkjun raforkuna.
Í skerðingum árið 2022 fóru stórnotendur fram á margfalt samningsverð fyrir skil á orku. Varð þá ekkert af viðskiptunum.