Eitt af málum málanna þessi misseri eru orkumálin. Málaflokkurinn varð þannig óvenjulega mikilvægur í nýliðnum forsetakosningum þar sem þau voru þaulrædd. Einnig hafa þingmenn og ráðherrar, sér í lagi úr röðum Sjálfstæðisflokksins, en ekki síður Samfylkingarinnar, um að virkja þurfi í mjög auknu magni vegna yfirvofandi orkuskorts.
Orkuskorturinn á víst að ógna upphitun íslenskra heimila og fyrirtækja og síðasta vetur hafa glöggir lesendur frétta kannski tekið eftir því að byrjað var að vara við því að í hörkufrosti gæti þurft að loka sundlaugum til að spara orku.
Það er því ekki úr vegi að bera þá orðræðu saman við framgang ýmissa fyrirtækja sem virðast hafa algerlega laust beisli og algjört frjálsræði hvað varðar að nota þessa takmörkuðu orku okkar og græða á tá og fingri á henni.
Dæmi um það er metnaðarfullt verkefni Björns Leifssonar, eiganda World Class líkamsræktarstöðvanna, sem hyggst reisa gríðarstórt „heilsuhótel og baðlón“ á Fitjum í Njarðvík.
Um framkvæmdina var fjallað í viðskiptablaði Morgunblaðsins í fyrradag, en raunar hefur Morgunblaðið fjallað um áformin áður, fyrst árið 2023. Í það fyrra skiptið átti hótelið og lónið að vera tilbúið árið 2026 og kosta 10-12 milljarði. Í dag segir Björn að það verði ekki tilbúið fyrr en árið 2028 og muni kosta allt að 20 milljarði.
Að því undanskildu hvað Ísland hefur við það að gera að reisa enn annað hótelið og moka svona miklum peningum í ferðamannaiðnað sem bakað hefur íslensku samfélagi ótal vandamál og erfiðleika, þá er það lónið sem er athyglisvert.
Af tölvugerðum teikningum að dæma verður lónið á við um tvær almenningssundlaugar að stærð, til að passa við stærð hótelsins sem verður 19 þúsund fermetra á stærð.
Nú er víst orkuskortur hangandi yfir höfðinu á landinu, ef marka má upphrópanir Guðlaugs Þórs, umhverfisráðherra Sjálfstæðisflokksins. Varað er við skömmtunum á varma og raforku til heimila, að skerða þurfi opnunartímasundlauga eða jafnvel loka þeim í kaldasta veðri og svo framvegis.
Hvernig stendur þá á því að athafnafólki sé gefinn svo lausan tauminn til þess að græða á notkun jarðvarmans?
Athuga skal að Björn Leifsson er ekki einn á báti með þessa hugmynd heldur bætist hann aðeins við í hóp aðra fyrirtækja og athafnafólks sem græðir nú þegar á orkunni okkar.
Þegar er búið að reisa og starfrækja um nokkra tíð lónið Sky Lagoon í Kópavogi og sömuleiðis hið svokallaða Forest Lagoon í Vaðlaskógi utan Akureyrar. Hitaböðin Geosea á Húsavík eru annað dæmi.
Greinilega er starfsemi allra þessara fyrirtækja miðuð að túristum fyrst og fremst af nafngiftum þeirra einum að dæma. Kannski Björn verði frumlegur og skýri lón sitt íslensku nafni, en í ljósi nafngiftar líkamsræktarstöðva hans má frekar gera ráð fyrir einhverju álíka klisjukenndu og Iceland lagoon.
Það sem eftir stendur er að fórna skal bæði náttúruperlum fyrir virkjanir og upphitun eða upphitunarkostnaði heimila og annarra fyrirtækja fram í lengstu lög áður en hemill verður settur á skefjalausan hagnað lónfyrirtækja sem mala gull um þessar mundir.
Þá getum við líklega kvatt sundlaugarnar, okkar helstu og bestu menningargæði, löngu áður en lónunum verður gert að draga segl sín að húni.
Að því öllu sögðu er alls ekkert víst að orkuskortur sé raunverulegur. Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, hefur vakið athygli á því að mikil sóun orku eigi sér stað vegna gamalla og úr sér genginna orkuinnviða. Ekki síður er mikið af orku eytt í skrítna hluti eins og rafmyndagröft og gagnaver.
Bjarni Bjarnason, fyrrum forstjóri Orkuveitunnar, kom nýverið við Rauða borðið og ræddi skoðun sína á því að það sé í raun enginn orkuskortur: