Ákvörðun Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra að láta þann sem sigrar Söngvakeppnina ákveða hvort Ísland sniðgangi Eurovison í ár mælist heldur illa á samfélagsmiðlum. Sú ákvörðun er óneitanlega ákveðin málamiðlun frá fyrri afstöðu, en í nokkrar vikur hefur Stefán ítrekað sagt að ekki stæði til að sniðganga eitt né neitt. Sumir telja að þetta þó fyrst og fremst gungulegt.
Einn þeirra er Mörður Áslaugarson, stjórnarmaður í RÚV, sem segir að eðlilegast hefði verið að stjórnin hefði tekið lokaákvörðun, líkt og hann lagði til við litlar undirtektir. Hann segir þetta augljóst bragð, gert til þess að losna við öll óþægindi sem fylgja því að taka svona ákvörðun. Hann skrifar á Facebook:
„Nú virðist hafa verið ákveðið inni í RÚV, algerlega án aðkomu stjórnar, vegna þess að þetta kemur henni ekki við, að varpa skuli ábyrgðinni á þáttöku RÚV í Eurovision á listafólkið sem vinnur í dægurlagakeppninni. Þetta er auðvitað win win fyrir stjórnina og stjórnendur. þetta stórkostlega trix firrir okkur algerlega allri ábyrgð á þessar gríðarlega mikilvægu ákvörðun og þeir sem verða brjálaðir út af niðurstöðunni, hver sem hún verður, munu beina bræði sinni að þessu listafólki en ekki að okkur. Þetta held ég að sé alveg meiriháttar. Ég held að einkunnarorð RÚv ættu að vera þessi: Hugrekki, heilindi ábyrgð.“
Mörður er fulltrúi Pírata í stjórn RÚV en Smári Mccarthy, fyrrverandi þingmaður flokksins, tekur undir með honum. „Einmitt það sem ég hugsaði þegar ég sá þetta. Frekar grimmilegt líka, að dangla möguleika á því að keppa í Eurovision (og mögulega vinna!!) fyrir framan listamann og vera hissa á því að þetta sé erfitt val,“ segir Smári.
Annar maður gagnrýnir málamiðlun Stefáns einnig harðlega, Álfur Birkir formaður Samtakanna ´78. Hann segir það mikla synd að stjórnendur á RÚV geti ekki einfaldlega tekið þetta skref að fullu. Álfur segir að afsakanir Rúnars Freyrs Gíslasonar og Stefáns útvarpsstjóra ekki halda vatni. Auk þess segir Álfur stórfurðulegt hve miklu máli það virðist skipta Stefán að við gerum það sama og Danir.
Hér fyrir neðan má lesa pistil Álfs í heild sinni.
Það verður ekkert Eurovision ball hjá mér í ár. Ekki á laugardaginn, ekki í mars og ekki í maí.
Á meðan RÚV hefur ekki tekið ákvörðun um að sniðganga Eurovision í Svíþjóð í ár er Söngvakeppni Sjónvarpsins ekkert nema framlenging Evrópukeppninnar. Ég get ekki með neinu móti notið þess þegar íslenska þjóðin velur sér framlag til að standa á sviði með áróðursmaskínu Ísrael og ætla því ekki að horfa á Söngvakeppnina eins og ég hef gjarnan gert.
Samt sem áður þykir mér Söngvakeppnin frábær vettvangur fyrir íslenskt tónlistafólk til að koma sér á framfæri. Ef RÚV tæki ákvörðun strax í dag um að sniðganga Eurovision stæði Söngvakeppnin eftir sem ein mesta tónlistaveisla ársins, ótengd Eurovision.
Það er synd að RÚV geti ekki tekið þetta skref. Rúnar segir að það sé mikilvægt að geta haldið Söngvakeppnina „og tekið svo ákvörðun út frá stöðunni sem verður þá, um miðjan mars.“ Hvaða stöðu? Fjölda látinna? Hvort Ísraelsher verði ennþá í óða önn að myrða saklausa borgara eða hvort þau hafi látið sér 40.000 manns nægja og sagt það svo gott? Ég get ekki séð að staðan í mars muni nokkru breyta um þann fjölda sem þegar hefur verið myrtur á Gaza.
Stefán segir „Engin samstaða er um málið meðal sjónvarpsstöðva í Norðurlöndum, en við erum í ágætum tengslum við þær. Þetta virðist ekki vera umræða nema á Íslandi og í Noregi. Þar er ekki um að ræða ákall og það segir til um þann mun sem þarna er á.“ Ég átta mig ekki alveg á hvers vegna íslenska ríkisútvarpið geti ekki tekið ákvörðun óháð því hvort Danir hafi uppi ákall til DR um að sniðganga Eurovision. Við hlutum sjálfstæði frá Dönum áður en RÚV var stofnað.
Að lokum segir Rúnar ekki hægt að hafa þessa glæsilegu fjölskylduhátíð, hátíð barnanna, af fólkinu. Nei þar er ég sammála en á meðan Ísland gæti tekið þátt í Eurovision er Söngvakeppnin óhjákvæmilega tengd henni. Þessi bönd má skerða með frekar litlum tilfæringum, nefnilega með því að lýsa því strax yfir að Ísland sniðgangi Eurovision.
Og hvers vegna er mér svona mikið í mun að Ísland taki ekki þátt í Eurovision? Jú, vegna þess að sagan sýnir okkur, m.a. frá aðskilnaðarstefnunni í Suður Afríku, að þegar listin og íþróttirnar spyrna við fæti þá tekur allt samfélagið undir og það er þannig sem við breytum heiminum.
Ég biðla til RÚV að taka fyrsta skrefið í þessum breytingum. Sniðgöngum Eurovision í ár og á meðan Ísrael fær að taka þátt. Við þurfum ekki að bíða eftir gömlum nýlenduherrum.