Fimm létust í banaslysum í umferðinni fyrstu sextán daga ársins. Liggur nærri að mannslíf tapist á þriggja daga fresti og virðist hálka aðalorsakavaldur. Flest slysin eiga sér stað úti á þjóðvegunum.
Hjá Samgöngustofu fást þær upplýsingar starfsmenn muni vart annað eins manntjón í umferðinni í upphafi nýs árs.
Síðast í gær fór flutningabíll út af veginum á Holtuvörðuheiði í hálku. Umferð lamaðaist um skeið en ekki urðu slys á fólki.
Blaðamaður Samstöðvarinnar var á ferðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur um síðustu helgi. Margir bílar lentu þá í vandræðum í erfiðu skyggni og á flughálum vegum vegna frostþoku. Myndin sem fylgir fréttinni var tekin í Húnavatnssýslu og sýnir stórt ökutæki á hliðinni á veginum.
Erlendir ferðamenn eru nokkuð stór hópur þeirra sem hafa misst lífið í banaslysum að vetrarlagi eftir að vinsældir Íslands sem heilsársáfangastaðar sprungu út. Fjöldi fólks virðist ekki búa yfir kunnáttu til að aka í flughálku. Sumir vegfarendur tala um rússneska rúllettu og mikilvægi þess að minnka umferð flutningabíla með skipaflutningum. Hefur verið nefnt að blása þurfi til sérstaks öryggisátaks.