Margir lesendur fréttasíðu Samstöðvarinnar urðu varir við þrumur og eldingar á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess í nótt og í morgun. Óvenjulegt er að þrumur og eldingar steli senunni hér á landi á þessum árstíma. Í Kópavogi var fallið frá því að hleypa gestum í sundlaugina vegna eldinga á himni og hættu þeim samfara.
Jóhannes Birgir Guðvarðsson segir í ummælum við frétt Samstöðvarinnar um hvellinn í morgun, að hann hafi heyrt tvær þrumur þegar hann hjólaði í vinnuna árla dags.
Sólveig Lind Ásgeirsdóttir segist hafa séð tvo blossa í Kópavogi með fimm mínútna millibili.
Ágústa Anna Ómarsdóttir segist hafa vaknað í Stykkishólmi við að gluggi í svefnherbergi væri við það að bresta. Hún segir vindstyrk hafa farið í 32 metra í Stykkishólmi og fylgdi mjög mikil rigning.
„Þannig að ég held að bíllinn minn hljóti að vera tandurhreinn eftir þetta óveður,“ segir Ágústa Anna.
Veðrið er á leið austur yfir landið norðanvert og hefur Veðurstofan gefið út appelsínugula viðvörun.