Þingmenn halda enn að sér höndum er kemur að yfirlýsingum um krísu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra og óljósa framtíð ríkisstjórnarinnar.
Í Mogganum í dag kemur fram að þinglið meirihlutans hafi verið beðið um að spara yfirlýsingar. Mogginn segir í fréttafyrirsögn að stjórnin sé í hættu ef Svandís skipti ekki um ráðherrastól.
Umboðsmaður Alþingis úrskurðaði á föstudag að Svandís hefði ekki farið að lögum þegar hún bannaði veiðar á langreyðum hjá Kristjáni Loftssyni með dags fyrirvara og bar Svandís við dýraverndarsjónarmiðum. Einn af þingmönnum minnihlutans sem Samstöðin ræddi við í morgun, segir málið flóknara en svo að það snúist aðeins um ráðherraábyrgð Svandísar.
„Þegar Mogginn kallar eftir að Svandís hrökklist frá völdum sem ráðherra er kannski ágætt að hafa í huga að hún hefur kannski staðið meira í lappirnar gegn þeim ægiöflum sem tengjast sjávarútvegi hér á landi en sumum hefur líkað,“ segir stjórnarandstöðuþingmaðurinn og vísar til eignarhalds Morgunblaðsins og ritstjórnarstefnu.
Sú einkennilega staða gæti verið uppi að ef tillaga um vantraust á Svandísi verður borin upp eftir að Alþingi kemur saman eftir jólafrí, stafi ráðherra meiri ógn af afstöðu eigin stjórnarmeirihluta, sérstaklega atkvæðum sjálfstæðisþingmanna, en atkvæðum frá minnihlutaþingmönnum.
Þingmaður Framsóknarflokksins, sem Samstöðin ræddi við, notar orðið „klaufaskap“ yfir viðbrögð Svandísar og formanns hennar Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra eftir að álitið varð opinbert. Það lýsi hvorki myndugleika né stjórnvisku að þær stöllur hafi reynt að gera mjög lítið úr málinu.