Helen Ólafsdóttir öryggisráðgjafi og sérfræðingur í þróunarhjálp telur að Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra kunni að vera sekur um stuðning við þjóðarmorð og að með því séu allir Íslendingar dregnir inn í þann stuðning.
Í aðsendri grein á Samstöðinni segir Helen enga tilviljun að stjórnvöld í Ísrael gáfu út tilkynningu eftir afgreiðslu Alþjóðadómstólsins þeim í óhag að 12 starfsmenn UNWRA hefðu tekið þátt í árásunum þann 7. október.
Bjarni ákvað þá einhliða að frysta stuðning Íslands við UNWRA. Helen kallar þá ákvörðun Bjarna „sturlun“. Þótt 12 manns af 13 þúsund hafi tekið þátt í 7. október sé með ólíkindum að ætla að refsa UNWRA og fólkinu á Gaza.
„Ég man ekki til þess að Vesturlönd hafi notað tækifærið til að beita svona hóprefsingu á sveltandi fólk. Þetta er skammarlegt ef Ísland ætlar að fara þessa leið. Bjarni Benediktsson er með þessari ákvörðun mögulega að gera Ísland samsekt um þjóðarmorð vegna þess að lögin um þjóðarmorð setja skuldbindingar á allar þjóðir sem eru aðilar að sáttmálunum að koma í veg fyrir þjóðarmorð.“
Í þættinum Synir Egils á Samstöðinni kom fram í gær að Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Stígamóta, segist dauðskammast sín fyrir afstöðu Bjarna
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar sagði í þættinum óyggjandi að málið hefði þurft að ræða í utanríkismálanefnd áður en Bjarni klippti á stuðninginn.
Von er á hörðum mótmælum á fundi nefndarinnar á morgun eftir því sem heimildir Samstöðvarinnar herma.
Sjá umræðu um málið hér:
Synir Egils: Þjóðarmorð, stjórnarkreppa og kjarabarátta (youtube.com)