„Þetta er svo grímulaust. Ísraelska sjónvarpsstöðin má sýna áróður, brot á reglum EBU, en ef Belarus gerir það þá er það bann. Ég er svo þreyttur á þessu. Sniðgeng þetta að öllu leyti í ár.“ Þetta skrifar leikarinn geðþekki Vilhelm Neto innan Facebook-hóps íslenskra aðdáenda Eurovision söngvakeppninnar. Nú er komið í ljós að stjórnendur keppninnar hafa ákveðið að Ísrael fái að vera með, hvað sem tautar eða raular.
Eðlilega eru flestir Íslendingar á þeirri skoðun að Ísland geti varla verið „sameinuð í tónlist“ með Ísrael, þjóð sem fremur þjóðarmorð um þessar mundir. Nú þegar hefur komið fram að Ísrael hyggst nota tækifærið óspart til að dreifa áróðri. Algengur misskilningur sé að Eurovision sé bara söngvakeppni sem skipti engu máli. Í það minnsta eru ráðamenn í Ísrael ekki sammála því og telja þátttöku í keppninni mjög mikilvæga. En hvað er hægt að gera? Hjalti Már Björnsson bráðalæknir er einn þeirra sem veltir þessu fyrir sér.
„Þá á eftir að koma í ljós hver næstu skref mótmælanna verða fyrst leyfa á þjóð sem er að fremja þjóðarmorð að taka þátt. Mun Ísland virkilega ætla að vera með? Sendir einhver inn lög í íslensku forkeppnina ef reyna á að halda hana? Munu aðrar þjóðir hætta við þátttöku, sumar eða allar? Ef keppnin verður haldin væri snyrtilegt ef allir í salnum stæðu á fætur og snéru baki í sviðið þegar Ísrael flytur lag sitt, helst með palestínska fánann á bakinu,“ skrifar Hjalti Már á Facebook.
Staðreyndin er sú að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vilja meina Ísrael þátttöku í Eurovision. Ef það er ekki hægt þá vill meirihluti þjóðarinnar að Ísland dragi sig úr keppni. Þetta sýnir netkönnun Prósentu svart á hvítu, sem var framkvæmd rétt fyrir jól. Um 76 prósent vilja Ísrael úr keppninni og um 60 prósent vilja að Ísland sniðgangi keppnina. RÚV segist oft vera sjónvarp allra landsmanna, en á það bara við þegar hentar?
Síðar í dag, klukkan 15.15, verða mótmæli fyrir utan RÚV í Efstaleiti vegna þessa en þar mun íslenskt tónlistarfólk skora á RÚV að neita að taka þátt í Eurovision nema Ísrael verði vísað úr keppni. Útvarpsstjóri fær afhentan undirskriftarlista fjölda tónlistarfólks, sem vill hvetja RÚV til að standa gegn þjóðarmorði. Hver verður dómur sögunnar á RÚV ef útvarpsstjóri ákveður að standa hjá og gera ekkert meðan þjóðarmorð er framið?