Sláandi niðurstöður hafa verið birtar um umfang spillingar á Íslandi. Á lista Transparency Internantional kemur fram að Ísland heldur áfram að falla niður listann og situr nú í nítjánda sæti.
Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency, segir í samtali við Samstöðina um niðurstöðurnar:
„Ég get ekki sagt að það komi mér á óvart að sjá Ísland falla enn einu sinni. Það er í samræmi við þróunina síðastliðinn áratug og kannski sérstaklega síðan Samherjamálið í Namibíu var afhjúpað.“
Atli Þór segir að í tilkynningu Transparency International sé Ísland notað sem dæmi um sleifarlag í baráttunni gegn spillingu. Enda hafi enginn enn verið ákærður í því máli hér.
„Það má þó kannski segja að fall Íslands á listanum getur verið jákvætt,“ segir Atli Þór, „því það bendir til þess að mýtan um Ísland sem ónæmt fyrir spillingu sé hægt og bítandi að hverfa.“
Hann bendir á að GRECO hafi sagt á sínum tíma að menn finni auðvitað aldrei það sem þeir neiti að leita að.
„Hugsanlega verður hægt að fá yfirvöld hér á landi til að hætta að trúa eigin þvælu um að spilling sé bara eitthvað útlenskt,“ segir Atli Þór. „Við getum vonandi farið að vinna gegn spillingu saman.“
Fjöldi mútumála, einkavæðing Íslandsbanka, Samherjamálið, spillt fiskveiðistjórnunarkerfi og óreiða í fjármálum stjórnmálaflokka eru hjá Transparency nefnd sem dæmi sem vinni gegn tiltrú almennings. Sérstaka athygli vekur að árið 2023 höfðu 20 manns stöðu grunaðra vegna mútumála á Íslandi.
Samkvæmt könnun telur almenningur á Íslandi sjávarútveginn og fiskveiðistjórnunarkerfið spillt. Ísland situr á botni Norðurlandanna. Danmörk er minnst spillta landið en Sómalía spilltasta land heims.
Sjá nánar hér: 2023 – Transparency.org