Tyrfingur Tyrfingsson leikskáld sem hefur náð að gera allt vitlaust með nýjasta leikriti sínu, áður en það er frumsýnt, segist ekki vilja bregðast við harðri ádrepu Drífu Snædal, talskonu Stígamóta.
„Nei, engin viðbrögð,“ sagði Tyrfingur í skilaboðum til blaðamanns Samstöðvarinnar við fyrirspurn þegar falast var eftir sjónarmiðum leikskáldsins.
Samstöðin hefur einnig boðið Borgarleikhúsinu að bregðast við án viðbragða. Eins og Samstöðin greindi frá í gær hefur Drífa hvatt þá sem ætla sér að kaupa miða á leikritið Lúna þar sem Heiðar snyrtir kemur við sögu, til að hugsa sinn gang.
Drífa gagnrýnir Tyrfing og Borgarleikhúsið harðlega og segir að leikritið sem verður frumsýnt á næstu dögum ýfi upp sár þolenda Heiðars sem kynferðisbrotamanns. Leikhúsið hafi ekki sinnt óskum þolenda.
„Kynferðisofbeldi er ógeð og smánarblettur í okkar samfélagi en nú um mundir virðist fólk aðallega hafa áhyggjur af því að þeir sem brjóta á öðru fólki megi ekki láta ljós sitt skína opinberlega lengur,“ sagði Drífa í harðorðum pistli í gær.
„Minni áhyggjur eru af því að kynferðisbrot geta haft áhrif á brotaþola allt þeirra líf og þó fólk hafi leitað sér hjálpar getur komið bakslag í líðan og það er sannanlega raunin hér,“ segir Drífa.
Ein þeirra spurninga sem hafa kviknað er frelsi listarinnar til að fjalla um álitamál.