Umheimurinn muni hlæja að Íslandi ef stjórnin springur á hval

Æ fleiri viðmælendur Samstöðvarinnar telja raunverulegan möguleika að ríkisstjórnin liðist í sundur á næstu vikum, enda á mörkunum að hægt sé að kalla hana starfshæfa við svo búið.  Útiloka má að Svandís Svavarsdóttir starfi áfram á stóli matvælaráðherra. Framsóknarmenn eru sagðir ásælast stól matvælaráðherra mjög.

Einn þekktasti stjórnmálaskýrandi landsins í daganna rás, Egill Helgason, spyr hvort það væri ekki eins og „lélegur brandari“ ef ríkisstjórnin félli á hvalveiðum „þessari algjörlega óþörfu og sérviskulegu iðju sem hér tórir enn? Hvernig verða fréttirnir af þessu í útlöndum? Verðum við ekki eins og viðundur?“ spyr Egill í færslu á facebook.

Nefndardagar verða á Alþingi í næstu viku. Beðið er útspils formanns VG, Katrínar Jakobsdóttur, áður en minnihlutinn ber fram tillögu um vantraust á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra.

Margir segja að viðbrögð Svandísar þegar hún bar við við að lögin væru gömul og úrelt hafi farið sérstaklega illa í þingmenn hinna meirihlutaflokkanna.

Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir í grein í Mogganum í dag að það þurfi „pólitíska einfeldninga“ til að sjá ekki hve afleiðingar málsins geti orðið alvarlegar fyrir Svandísi.

Þótt VG hafi varið ráðherra Sjálfstæðisflokksins fyrir vantrausti áður segja margir að vinstri grænir eigi ekki inni sama greiða núna.  Valdabarátta innan Sjálfstæðisflokksins einfaldar ekki málið en greinileg ósamstaða er innan þingflokks sjálfstæðismanna.

Margir viðmælendur Samstöðvarinnar nefna að nú sé tækifæri fyrir skörungsskap hjá Katrínu Jakobsdóttur sem og hjá öðrum formönnum flokkanna á þingi. Hvort sem umheimurinn muni slá Íslendingum upp sem viðundrum eða ekki.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí