Umræða um spillta eða hlutdræga dómara eftir grátlegt tap Íslands

Eftir naumt, sárgrætilegt og óverðskuldað tap Íslands á EM í gær gegn Þjóðverjum, hefur skapast umræða hvort dómarapar leiksins gerði mistök eða dæmdi Íslandi meðvitað í óhag á ögurstundu undir lok leiksins á heimavelli Þjóðverja.

Danir eru meðal þeirra sem bent hafa á að síðasta mark Þjóðverja hafi verið kolólöglegt. Þeir nefna tvígrip til sögunnar sem og leiktöf Þjóðverja sem dómarararnir hafi litið undan þegar Ísland hefði getað jafnað leikinn í blálok.

Þá hefur verið ýjað að því á samfélagsmiðlum hvort dómararnir hafi þegið mútur til að tryggja Þjóðverjum sigur í lokin. Spilling meðal dómara hefur verið vandamál í fjölmörgum keppnisgreinum undanfarið.

Sumir segia ábyrgðarlaust að halda fram án rökstudds gruns að úrslitin hafi verið rigguð. En hvort sem dómararnir voru hlutdrægir, saklausir, spilltir eða ekki, liggur fyrir að róðurinn er orðinn þungur fyrir landsliðið okkar ef horft er til möguleika á verðlaunasæti eða umspils fyrir Ólympíuleikana síðar á árinu.

Liðin sem Ísland á eftir að spila við í milliriðli eru Frakkar, Króatar og Austurríkismenn. Fyrirfram eru sérfræðingar sem Samstöðin hefur rætt við sammála um að ólíklegt sé að Ísland nái nema tveimur, kannski þremur stigum úr þessum viðureignum. Lið Króata er firnasterkt og hefur spilað mjög vel á köflum. Um Frakka þarf engin orð að hafa þótt við höfum áður þvert á allar líkur átt til að rassskella öflugustu lið heims. Aftur á móti gæti Ísland hæglega unnið Austurríkismenn eins og við gerðum í tvígang í æfingaleikjum fyrir EM.

Tvö stig myndu litla skila öðru en stoltinu sem landsmenn vonuðust til að myndi eflast enn frekar með betri árangri á tímum náttúruhamfara og óvissrar framtíðar. Eftir tapið gegn Unhverjum og gestgjöfum Þjóðverja í mótinu í gærkvöld erum við enn án stiga í milliriðlinum. Ef Ísland kemur ekki á óvart með stórbrotinni frammistöðu í þeim þremur leikjum sem fram undan eru, sá fyrsti er á morgun, erum við á leið heim án þess að markmið liðsins hafi orðið að veruleika.

Fall væntinganna er staðreynd. Bót er þó í máli að eftir leik gærkvöldsins að nokkrum þrýstingi var létt af Snorra Steini Guðjónssyni landsliðsþjálfara og forystu HSÍ með því að liðið barðist til síðasta blóðdropa og þjóðarsálin endurheimti hjarta sitt. Það breytir ekki því að auglýsingasamningar HSÍ hafa rekið flein í samstöðu þjóðarinnar og stuðning með sama hætti og deilt er um þátttöku Íslendinga í Evróvisjón vegna ástandsins á Gasa.

Bent hefur verið á að HSÍ ætti að skoða hvort bæta mætti andlegu hliðina hjá leikmönnum landsliðsins fyir næsta stórmót. Leikmenn voru ekki sjálfir sér líkir í fyrstu þremur leikjunum. Færanýting strákanna okkar er einnig rannsóknarefni. Líkur á að skora úr vítum eru að óbreyttu undir 50 prósentum og hornin sem áttu að vera eitt helsta trompið skiluðu afleitri frammistöðu í gær.

Sitthvað fleira er umsnúið miðað við væntingar og umræðu sérfræðinga fyrir mótið Varnarleikurinn var stórbrotinn í gærkvöld. Fyrirfram var áætlað að sóknarleikurinn og hraðinn yrði okkar helsta tromp. Það hefur ekki gengið eftir og er verk að vinna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí