Bandaríski flotinn hyggst auka viðveru sína á Kyrrahafinu vestanverðu, sem viðbragð við auknum umsvifum Kínverska hersins á hafsvæðinu. Að minnsta kosti fimm bandarísk flugmóðurskip verða send á svæðið í ár.
Skipin sem um ræðir geta borið um 90 flugvélar hvert. Telja greiningaraðilar vestra að með þessari auknu viðveru séu bandarísk stjórnvöld bæði að senda skilaboð til Kínverja en ekki síður til bandamanna sinna um þann ásetning sinn að auka sýnileika sinn á svæðinu. Um ýmis svæði bæði í Austur- og Suður- Kínahafi ríkir ágreiningur, sem og um Tævan, sem mögulegt er að geti valdið frekari árekstrum.
Flugmóðurskipið Abraham Lincoln lagði af stað þegar 5. þessa mánaðar en á hafsvæðinu voru fyrir flugmóðurskipin Carl Vinson og Theodore Roosevelt. Þau tvö síðarnefndu voru á sameiginlegum æfingum með japanska flotanum á hafsvæðinu við Filippseyjar seint í síðasta mánuði. Kínversk herskip fylgdust grannt með gangi mála á æfingunum úr lítilli fjarlægð.
Kína hefur haldið uppi reglulegri hernaðarógn við strendur Tævan, með reglulegu flugi herflugvéla yfir Tævansundi. Þá hefur kínverski flotinn haft töluverða viðveru við eyjuna, sem Kínverjar hafa ítrekað lýst yfir að sé hluti af kínversku landssvæði og hafa heitið því að taka hana yfir, jafnvel með hervaldi.