Í nýlegri grein eftir Sigurjón Baldur Hafsteinsson prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands sem nefnist „Pláneta, húsbrot, líkön og baðstofur“ og birtist í bókinni Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking, heldur hann fram að íslensk torfhús hafi „siglt framhjá eins og óþekkt pláneta og orðið gleymskunni að bráð.“
Með því á Sigurjón við að þótt vitneskja um torfhús liggi fyrir og að einhver þeirra standi enn uppi í dag, sé það aðeins lítið brot af því manngerða umhverfi sem einkenndi líf Íslendinga frá landnámi.
Sigurjón segir að með útrýmingu torfhúsa og þar með vistaskiptum í húsnæðisbyggingum Íslendinga á 19. og 20. öldinni, hafi Íslendingar orðið efnislega fátækari. Einnig ómeðvitaðir um mennskuna sem mótaði torfhús og lífið í þeim í aldanna rás.
Samstöðin spurði Sigurjón hvað varð til þess að Íslendingar ákváðu að jafna torfbæi við jörðu út um allt land?
Hann segir rannsóknir sínar benda til áhugaverðra svara við þeirri spurningu. Í opinberri umræðu hafi torhús verið dæmd ófullnægjandi fyrir fólk og þau sögð jafnvel verri en eldur og ís!
„Inn í þennan harða dóm um torfhús blandast saman hugmyndir um framfarir af ýmsu tagi,“ segir Sigurjón. „Einstaklingar sem bjuggu í slíkum húsum áttu samkvæmt sumum ekki miklar vonir um að þrífast vel þar sem sagt var að í bæjunum væri ljósmagnið jafnan takmarkað, loftgæðin lítil og svigrúm til persónulegra þarfa þröngt.“
Fyrir samfélag sem daðraði við sjálfræðishugmyndir þóttu torfhús ekki samrýmast hugmyndum um nútíma samfélag. Torfbæir urðu þannig auðveldur skotspónn framfarahyggju.
Sjálf lýðveldisstofnun Íslands virðist hafa orðið torfhúsum einkar skeinuhætt.
„Í kringum lýðveldisstofnunina 1944 var það því eitt af því fyrsta sem yfirvöld gerðu að ganga endanlega af torfhúsunum dauðum og fá fólk til að byggja úr öðrum efnum,“ segir Sigurjón.
Þáttur menntamanna eins og lækna, verkfræðinga og arkitekta í útrýmingaraðgerðum torfhúsa er töluverður að sögn Sigrjóns. Raddir menntafólks áttu stóran þátt í dómhörku sem skapaðist gagnvart torfhúsunum. Menn voru opinberlega ómyrkir í máli um vankanta torfhúsa. Fundu þeim allt til foráttu.
„Galli er hins vegar á því hvernig þeir töluðu um torfhús, en á sama tíma og fjölbreytni þeirra um land allt var mikil, þá töldu þeir sig þess umkomna að tala um torfhús eins og væru öll eitt samdauna skítabæli,“ segir Sigurjón. „Það var hins vegar fjarri lagi og í raun jafn gáfuleg nálgun og að setja samansemmerki milli myglaðrar nýbyggingar og alls húsakosts í landinu nú á dögum.“
Áhrif útrýmingar torfhúsa eru margvísleg og virðist ljóst að mikill menningararfur hafi að ósekju verið jafnaður við jörðu í nafni framfarahyggju.
Sigurjón Baldur segir enda í grein sinni að blendnar tilfinningar sé að finna hjá fólki í fortíð og nútíð gagnvart þessum aðgerðum. Torfhús hafi verið heimili Íslendinga í 1100 ár. Þær voru „uppeldisstöðvar og einn mest mótandi þáttur í daglegu lífi“ eins og kemur fram í grein Sigurjóns Baldurs.
Skömm á torfhúsum hreiðraði um sig, en líka söknuður, eftirsjá og iðrun.
Myndin er tekin af torfæ við Grímsstaði í Mývatnssveit árið 1941. Hann stóð fram á áttunda áratug síðustu aldar.
Sjá grein Sigurjóns hér: (PDF) Pláneta, húsbrot, líkön og baðstofur | Sigurjón Baldur Hafsteinsson – Academia.edu