Fíklar þurfi faðmlag en hvorki fleiri byssukjafta né harðari fangelsisrefsingar

Bubbbi Morthens vill afnema bann við fíkniefnum hér á landi. Hann segir knúz og kærleika vera svarið við ýmsum vanda utangarðsfólks hér á landi. Harðari refsistefna geri líf ógæfufólks oft bara enn verra.

„Það er fullt af fólki sem vaknar á Íslandi á morgnana en þorir ekki út í lífið,“ segir Bubbi í þættinum Maður lifandi á Samstöðinni. Í þættinum ræðir hann ýmis samfélagsmál og beinir sérstaklega tali sínu að ungu fólki auk þess að fara yfir eigin feril.

Alkóhól og önnur fíkniefni hafa náð heljartökum á mörgum Íslendingum að sögn Bubba. Hann var nýkominn úr jarðarför manneskju sem féll frá allt of snemma þegar hann ræddi við 16 ára gamlan umsjónarmann Maður lifandi.

Að Bubba mati verður að aflétta boðum, bönnum og refsingum er kemur að fíkniefnum. Hann gerir sérstaka athugasemd við að hópar þungvopnaðra sérsveitarmanna umkringi fíkla í sjúku ástandi þegar staðreyndin sé sú að svarið við vanda þeirri felist í kærleika og að þeir komist á sjúkrahús í meðferð.

„Þessi refsistefna er algjörlega komin út í bull og vitleysu,“ segir Bubbi.

Fyrir nokkrum árum var refsiramminn þyngdur sem leiðir til þess að margir fíklar þurfa nú að sitja um árabil í fangelsi vegna brota vegna þess að þeir eru ekki heilir og þeim líður illa. Þeir þurfa hjálp og athygli en ekki fleiri byssukjafta og harðari fangelsisvist að sögn Bubba, sem situr í stjórn SÁÁ.

 „Ég hef oftar en ekki lent á mjög brjáluðum einstaklingum,“ segir Bubbi sem er í hópi alþekktustu Íslendinga samtímans sem tónlistarmaður. Hann kemst stundum ekki í gegnum Kringluna án þess að fjöldi fólks vilji fá að taka sjálfu með honum. En um þá sem eru viti sína fjær, segir Bubbi:

„Ef þú lækkar röddina og opnar faðminn og segir: Heyrðu, komdu, taktu utan um mig! Þá gerist það oftar en ekki að viðkomandi fer að gráta.“

Bubbi segir að þrjú gildi ættu að vera á skiltum við innganga allra opinberra bygginga hér á landi og sérstaklega alla skóla.  Orðin sem ættu að standa á skiltunum eru: Kærleikur, samkennd, samúð.

Bubbi ræðir sérstaklega nóttina þegar hann vaknaði upp um miðja nótt, hnippti í fyrrverandi konuna sína og sagði upphátt: „Ég er hættur.“ Hann hringdi í Tolla bróður sinn til að hjálpa sér, fékk umönnun hjá sérfræðingum og hefur unnið mikið í sjálfum sér síðan. Hann segist hafa verið heppinn að losna úr viðjum fíknarinnar sem hann tengir við áföll í æsku.

Sjá allt viðtalið hér:

Maður lifandi 22. febrúar – Bubbi og unga fólkið (youtube.com)

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí