Landssamtökin Geðhjálp gengu nýlega í Umhyggju, félag langveikra barna. Foreldrar barna með geðrænar áskoranir sem verða hluti af Foreldrahópi Geðhjálpar fá með aðild Geðhjálpar að Umhyggju aðgang að fjölbreyttri þjónustu og stuðning til félagsmanna aðildarfélaga Umhyggju, en stefnt er að stofnun foreldrahóps innan Geðhjálpar.
Frá þessu er greint á vef Geðhjálpar. Með aðild að Umhyggju eykst sú þjónusta sem stendur félagsfólki Geðhjálpar til boða. Felst hún meðal annars í ráðgjöf og stuðningi í réttindabaráttu, fjárstyrkjum, endurgjaldslausri lögfræðiráðgjöf, endurgjaldslausri sálfræðiþjónustu og möguleika á dvöl í sérútbúnum orlofshúsum bæði sumur og vetur.
Umhyggja er félag sem vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra. Í félaginu starfa foreldrar langveikra barna og fagfólk innan heilbrigðiskerfisins. Einnig eiga 17 félög og hópar foreldra langveikra barna aðild að félaginu. Geðhjálp eru samtök 7.500 félaga, notenda, aðstandenda, fagfólks og áhugafólks um bættan hag fólks sem býr við geðrænar áskoranir í samfélaginu. Samtökin vinna að því að bæta þjónustu, verja réttindi og vinna gegn fordómum með hagsmunagæslu, ráðgjöf, upplýsinga- og þekkingarmiðlun.
Mynd af vef Geðhjálpar, af stjórn samtakanna.