Uppboði á húðflúraðri húð austurrísks gjörningalistmanns, Wolfgang Flatz, var aflýst fyrr í febrúarmánuði eftir að allar tólf húðpjötlurnar sem bjóða átti upp voru keyptar af safnara áður en uppboðið hófst. Upphæðin sem safnarinn, sem er svissneskur, greiddi fyrir var talin í tugum ef ekki hundruðum milljóna en nákvæm tala var ekki gefin upp.
Til stóð að uppboðið færi fram 8. febrúar síðastliðinn í nýlistasafninum Pinakothek der Moderne í Munchen. Af því varð ekki þar eð safnarinn svissneski hafði þegar tryggt sér húðina. Mun hann fá í sínar hendur svart-hvítar ljósmyndir að húðinni en húðina sjálfa að Flatz látnum. Einn hluti húðarinnar verður þó í vörslu sonar Flatz. Meðal húðflúranna sem flúruð eru á gjörningalistmanninn er nafn hans á kýrilísku.
Uppboðið sem til stóð að halda var nefnt „Að hætta eigin skinni“. Mun þetta vera í fyrsta skipti sem listamaður hefur selt eigin líkama sem listaverk, í lifanda lífi.
Salan á húð Flatz vekur upp siðferðisleg og lagaleg álitamál tengd framleiðslu, sýningum og sölu á framúrstefnu listaverkum. Í samtali við listatímaritið The Art Newspaper segir lögfræðingurinn Xisca Borràs, sem sérhæfð er í lívísindalegri lögfræði hjá breska lögfræðifirmanu Bristows, að siðferðislegar jafnt sem menningarlegar spurningar muni rísa varðandi sölu á húð, sem sé líffæri. „Lög snerta ekki sérstakleg á athæfi sem þessu, þrátt fyrir viðleitni Evrópuráðsins og Evrópuríkja til að stöðva mansal með líffæri. Og það hvort að listamaðurinn geti veitt viðeigandi samþykki í ljósi þess að hann fær greitt fyrir húðina er ósvarað frá sjónarhorni laganna.“
Imogen Goold sem er prófessor í heilbrigðisrétti við háskólann í Oxford tekur undir með Borràs. Flestar lagagreinar sem snúi að notkun líffæra séu miðaðar að notkun í rannsóknarskyni. Til séu dómafordæmi sem snúi að eignarhaldi á líffærum en ekki að sölu þeirra. Þrátt fyrir að það kunni að koma á óvart eru þess all nokkur dæmi að mannsvefur og líffræðileg efnasambönd séu seld, og segir Goold að besta dæmið um slíkt sé hár í hárkollur. Þá hafi verið reynt að selja brjóstamjólk yfir netið. Slík sala falli að líkindum undir neytendalöggjöf en lögmæti sölunnar sem slíkrar sé eitthvað sem löggjöfin hafi hreinlega ekki tekið með í reikninginn.
Sala á líffærum í listrænum skyni sé því líklega ónumið land í lagalegur tilliti segir Goold. Hins vegar hefur slík sala áður farið fram. Árið 2005 seldist skúlptúrinn Sjálfið (e. Self) eftir listamanninn Marc Quinn fyrir 1,5 milljónir breskra punda. Skúlptúrinn var eftirmynd af höfði listamannsins sjálfs, gerður úr rúmum fjórum lítrum af frosnu blóði úr Quinn.