Sigríður Hagalín Björnsdóttir, fréttakona á Ríkisútvarpinu og rithöfundur, er meðal þeirra sem fengu 12 mánaða ritlaun – listamannalaun til að halda áfram að skrifa bækur.
Annar Rúvari, Felix Bergsson, upplýsir að hann hafi sótt enn eina ferðina um listamannalaun en hafi fengið synjun líkt og fyrri daginn.
„Vonaðist til að fá 3 mánuði en ég hef verið að skrifa vinsælan bókaflokk á Storytel um Ævintýri Freyju og Frikka. Ég fékk neitun,“ segir Felix á facebook og bætir við að hann hafi skrifað fjórar bækur í þessum flokki og sú fimmta komi í lok árs 2025.
„En ég get ekki haldið áfram nema listamannalaun komi til. Þannig er veruleiki þeirra sem skrifa (barna)bækur á íslensku.“
Enn einn gamall Rúvari, Jónatan Garðarson, stýrir nefndinni sem úthlutar listamannalaununum.
Mikil umræða varð hjá keppinautum Rúvara á útvarpstöðinni Bylgjunni í morgun meðal dagskrárgerðarmanna um hvort eðlilegt væri að ríkisstarfsmenn fengju listamannalaun.
Þá hefur Halldór Armand opinberlega rætt klíkuskap við útdeilingu.
Elísabet Jökulsdóttir er meðal þeirra sem fékk engin starfslaun fyrir næsta ár, en henni hefur orðið allt að vopni í list sinni síðustu ár.
Umræða verður á Samstöðinni um listamannalaun í kvöld.