Tímamót í Grindavík með opnun bæjarins, viðbrögð við breyttri innflytjendastefnu ríkisstjórnarinnar, umhverfismál, Víkingur Heiðar konsertpíanisti og fleira verður á dagskrá við Rauða borðið á Samstöðinni í kvöld.
Við hefjum leik í Grindavík þar sem bærinn er ekki lengur rammlæstur, við ræðum við íbúa.
Annar válegur veruleiki sem við blasir á heimsvísu er loftslagsmálin. Stærstu hita- og kuldamet falla um víðan völl svo nemur frávikum upp á 6-7 gráður. Stefán Jón Hafstein, höfundur bókar um umhverfismál, kemur og ræðir andvaraleysið í heiminum gagnvart ógninni sem nú er smám saman að taka á sig andlit og fá rödd.
Það verður einnig fjallað um menningu við Rauða borðið. Víkingur Heiðar Ólafsson píanisti er á margra vörum þessa dagana, jafnt innan sem utan landsteinanna. Við fáum einn þekktasta tónlistarkrítíker landsins, Arndísi Björk Ásgeirsdóttur í heimsókn, hún ætlar að segja okkur söguna alla á bak við Víking.
Síðast en ekki síst kemur svo Hjálmtýr Heiðdal fyrir hönd Ísland-Palestínu í viðtal. Hann ætlar að greina nýjustu vendingar í stríðinu á Gaza og segja okkur frá mikilli fjögun félagsmanna undanfarið. Við fáum líka viðbrögð hans við einu stærsta fréttamáli dagsins sem er breytt stefna ríkisstjórnarinnar í innflytjendamálum.
Allt í beinni útsendingu – hefst klukkan 20 í kvöld.