Grindvíkingar horfa til Suðurlands sem fyrirheitna landsins

Margir Grindvíkingar standa nú heimilislausir á krossgötum. Nokkrir tugir hafa fengið inni í orlofshúsum í Ölfusi sem og víða um land þar sem hægt er að finna skjólshús.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir sveitarfélagið tilbúið að taka á móti mörgum Grindvíkingum til búsetu ef vilji þeirra stendur til þess. Hann finnur fyrir töluverðum áhuga og segir ekki ólíklegt að hundruð Grindvíkinga kunni að flytja sig yfir í Ölfus og aðrar byggðir á Suðurlandi.

„Á næstu árum verður fjárfest í atvinnuverkefnum hér fyrir 200 til 300 milljarða, mest í fiskeldi á landi en einnig í gagnaverum, gróðurhúsum, fullvinnslu á matvælum og mörgu fleira,“ segir Elliði og bendir á að atvinnulega þurfi fleiri hendur á dekk. Hann verður í ítarlegu viðtali við Rauða borðið á Samstöðinni í kvöld.

„Við teljum okkur hafa gott tækifæri til að taka á móti nýjum íbúum og erum meðvituð um mikilvægi þess að stíga fram af festu.“

Ríkisstjórnin hefur sýnt á spilin og er ríkið að kaupa upp eignir Grindvíkinga sem hafa ákveðið að flytja burt. Ólíklegt er að búseta í Grindavík verði næstu árin nema óveruleg.

Kannski kemur ekki á óvart að Grindvíkingar horfi nú til sveitarfélaga á Suðurlandi því sveitarfélögin Ölfus, Þorlákshöfn og Grindavík eru um margt lík menningar- og sögulega að sögn Elliða.

„Sérstaklega eru Þorlákshöfn og Grindavík lík. Á báðum stöðum er rík virðing fyrir verðmætasköpun og skilningur á raunhagkerfinu,“ segir hann. „Íbúar eru samheldnir, stoltir og vita að það grær þar sem girt er um. Þess vegna eru þeir ætíð tilbúnir til að leggja lykkju á leið sína fyrir sitt samfélag.“

Íbúafjöldi í Ölfusi hefur vaxið um sex til níu prósent á ári undanfarið að sögn Elliða.

„Eftir sem áður berum við virðingu fyrir viðkvæmri stöðu í Grindavík,“ segir hann. „Við vildum auðvitað helst sjá veg þess einstaka samfélags sem mestan og að þar verði sem fyrst aftur blómleg byggð.“

Myndin er af Elliða við Rauða borðið á Samstöðinni en þátturinn er í umsjá Gunnars Smára og hefst klukkan 20 í kvöld.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí