Margir Grindvíkingar standa nú heimilislausir á krossgötum. Nokkrir tugir hafa fengið inni í orlofshúsum í Ölfusi sem og víða um land þar sem hægt er að finna skjólshús.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir sveitarfélagið tilbúið að taka á móti mörgum Grindvíkingum til búsetu ef vilji þeirra stendur til þess. Hann finnur fyrir töluverðum áhuga og segir ekki ólíklegt að hundruð Grindvíkinga kunni að flytja sig yfir í Ölfus og aðrar byggðir á Suðurlandi.
„Á næstu árum verður fjárfest í atvinnuverkefnum hér fyrir 200 til 300 milljarða, mest í fiskeldi á landi en einnig í gagnaverum, gróðurhúsum, fullvinnslu á matvælum og mörgu fleira,“ segir Elliði og bendir á að atvinnulega þurfi fleiri hendur á dekk. Hann verður í ítarlegu viðtali við Rauða borðið á Samstöðinni í kvöld.
„Við teljum okkur hafa gott tækifæri til að taka á móti nýjum íbúum og erum meðvituð um mikilvægi þess að stíga fram af festu.“
Ríkisstjórnin hefur sýnt á spilin og er ríkið að kaupa upp eignir Grindvíkinga sem hafa ákveðið að flytja burt. Ólíklegt er að búseta í Grindavík verði næstu árin nema óveruleg.
Kannski kemur ekki á óvart að Grindvíkingar horfi nú til sveitarfélaga á Suðurlandi því sveitarfélögin Ölfus, Þorlákshöfn og Grindavík eru um margt lík menningar- og sögulega að sögn Elliða.
„Sérstaklega eru Þorlákshöfn og Grindavík lík. Á báðum stöðum er rík virðing fyrir verðmætasköpun og skilningur á raunhagkerfinu,“ segir hann. „Íbúar eru samheldnir, stoltir og vita að það grær þar sem girt er um. Þess vegna eru þeir ætíð tilbúnir til að leggja lykkju á leið sína fyrir sitt samfélag.“
Íbúafjöldi í Ölfusi hefur vaxið um sex til níu prósent á ári undanfarið að sögn Elliða.
„Eftir sem áður berum við virðingu fyrir viðkvæmri stöðu í Grindavík,“ segir hann. „Við vildum auðvitað helst sjá veg þess einstaka samfélags sem mestan og að þar verði sem fyrst aftur blómleg byggð.“
Myndin er af Elliða við Rauða borðið á Samstöðinni en þátturinn er í umsjá Gunnars Smára og hefst klukkan 20 í kvöld.