Talið er að 3,5 milljónir barna í Súdan þjáist af bráðri og alvarlegri vannæringu. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, telur að vannæring muni ógna lífi um 700 þúsund barna á þessu ári. Borgarastyrjöldin í landinu er alvarlegast flóttafólkskrísa sem er yfirstandandi í heiminum að mati UNICEF.
Síðan borgarastyrjöldin braust út fyrir tíu mánuðum er talið að um þrjár milljónir barna hafa hrakist frá heimilum sínum og séu á flótta. Um 7,5 milljónir manns hafa þurft að leggja á flótta, þar af eru tæpar 6 milljónir á flótta innan Súdan en um 1,5 milljónir hafa flúið landið.
UNICEF gaf út á föstudag að stofnunin hefði ekki bjargir til að koma fleiri en 300 þúsund börnum til hjálpar nema að fá verulega aukna aðstoð. Þar í ofanálag hefta stríðsátökin mjög aðgengi neyðaraðstoðar á ákveðnum svæðum. Talsmaður UNICEF, James Elder, sagði að ef ekki yrði gripið til tafarlausra aðgerða myndu tugir þúsunda barna að líkindum láta lítið.
Borgarastríðið sem er háð milli tveggja fylkinga úr herforingjastjórninni í Súdan hófst í apríl á síðasta ári og hefur einkum verið barist í nágrenni höfuðborgarinnar Khartoum og í Darfur-héraði. Á bilinu 13 til 15 þúsund manns hafa látist í átökunum, tölur um mannfall eru nokkuð á reiki, og um 33 þúsund eru sár.
„Banvæn blanda vannæringar, þess fjölda sem hvergi á höfði sínu að halla og sjúkdómum eykst dag frá degi og við höfum afskaplega lítinn tímaglugga til að bregðast við og koma í veg fyrir gríðarlegt manntjón,“er haft eftir Catherine Russell framkvæmdastjóra UNICEF sem kallar eftir óhindruðum aðgangi mannúðar- og hjálparsamtaka í landinu og alþjóðlegri aðstoð.