Hvað eru Ungverjar eiginlega að þvælast í Afríku?

Í nóvember á síðasta ári samþykkti ungverska þingið að senda 200 hermenn til Afríkuríkisins Tjad. Hlutverk hermannanna á, samkvæmt yfirlýsingum ungverskra stjórnvalda, að vera að veita ráðgjöf og þjálfun á vettvangi. Sama hlutverk og bandarískir hermenn áttu samkvæmt bandarískum stjórnvöldum að gegna í Víetnam þó raunin hafi orðið allt önnur. 

Markmið ungverskra stjórnvalda með því að senda umrædda hermenn er sagt vera að aðstoða við baráttuna gegn hryðjuverkum og hemja þar með flóttamannavandann frá Afríku, að því er stjórnvöld sjálf halda fram. 

Herferðin til Tjad, sem jafnframt á að þjóna nágrannalöndum, þar á meðal Níger, kom flestum á óvart, bæði sérfræðingum í Ungverjalandi, sem og almenningi. Samkvæmt heimildum sem ungverski fjölmiðillinn Telex.hu hefur innan úr ungverska hernum er leiðangurinn talinn bæði áhættusamur og dýr, og alls ekki einhugur um hann innan hersins. Þá er sömuleiðis velt upp spurningum um hvaða hagsmuni Ungverjaland hafi af herförinni. 

Fram til þessa hefur Ungverjaland ekki rekið sérstaklega afgerandi né sjálfstæða utanríkisstefnu í málefnum Afríku. Miðað við umfang hernaðaraðstoðarinnar nú eru markmiðin sögð óljós, reynsla og bjargir sagðar litlar og ástandið á svæðinu sagt fela í sér margvíslegar hættur. 

Ungverskir hermenn hafa þó enn sem komið er ekki verið sendir til Tjad og greindi ungverski fjölmiðillinn 444.hu þá frá því í desember að alls óvíst væri hvort af herförinni yrði yfirleitt, þrátt fyrir samþykktir stjórnvalda.

En hvers vegna Tjad?

Tjad er landlukt ríki í miðri Afríku, fyrrverandi frönsk nýlenda og frönsk áhrif eru þar enn töluverð. Þannig eru um 1.500 franskir hermenn með viðveru í landinu, að sögn til ráðgjafar og þjálfunar, en ljóslega einnig til að gæta franskra hagsmuna. 

Landið er eitt það fátækasta í heiminum og skorar lágt á öllum mælikvörðum um lífsgæði, mannréttindi og lýðræði. Tjad situr á miklum olíulindum en sem fyrr segir ríkir þar sára fátækt. Tveir þriðju hlutar þjóðarinnar eru undir fátæktarmörkum og lifa á mannúðaraðstoð.  Nálægt 200 þjóðarbrot byggja landið en mannfjöldinn er um 17 milljónir á víðfeðmu svæði sem meðal annars er að töluverðum hluta eyðimörk. Þjóðarbrotin eiga sum hver fátt sameiginlegt, þar á meðal trúarbrögð. 

Ekki er ofsagt að Tjad sé umkringt átakasvæðum. Í norðri á Tjad landamæri að Líbíu, þar sem ríkt hefur borgarastyrjöld með hléum frá árinu 2011. Í austri liggja landamærin að Súdan þar sem geisar borgarastyrjöld og í vestri er Níger, þar sem herinn rændi völdum á síðasta ári. Í suðri er svo Mið-Afríkulýðveldið þar sem verulega ótryggt ástand ríkir, með bardögum milli uppreisnarhópa og hermanna stjórnvalda auk þess sem Wagner-málaliðahópurinn hefur haft þar viðveru um margra ára skeið. Hermenn frá Tjad hafa staðið í bardögum síðustu misseri, innan landamæra Mið-Afríkulýðveldisins og á landamærunum við Súdan.

Forseti Tjad, Idriss Déby, var ráðinn af dögum í aprílmánuði 2021 og tók sonur hans Mahamat Déby Itno við völdum, óumbeðinn af almenningi. Hefur Déby Itno lýst því yfir að hann hyggist láta fara fram lýðræðislegar kosningar en fátt bendir til að hann ætli sér að uppfylla það loforð. Þingkosningar eru vissulega boðaðar í október komandi en talið er útilokað að þær fari fram með lýðræðislegum hætti, né heldur er talið að forsetinn sitjandi muni fara frá völdum, jafnvel þó að hann yrði að þola ósigur. 

Undir forystu Déby Itno var stjórnarskrá Tjad afnumin. Á síðast ári réðust vopnaðar öryggissveitir til atlögu við mótmælendur sem kröfðust lýðræðislegra kosninga með þeim afleiðingum að 200 manns féllu. Fjöldi leiðtoga stjórnarandstöðu landsins flýðu land í eftirleiknum. 

Eiga að verja hagsmuni sem ekki eru til staðar

Sem fyrr segir eru opinberu rökin fyrir hugsanlegum herleiðangri Ungverja til Tjad, rétt eins og jafnan er þegar vestræn ríki hlutast til um innanríkismál í Afríku, byggð á nauðsyn þess að takast á við mannúðar- og flóttafólks krísuna. Hins vegar ríkir í raun ekki eiginleg flóttmanna krísa í Tjad sjálfu, það er að flóttafólk sem kemur frá Tjad er ekki borgarar þar heldur kemur það einkum frá Súdan. Þá fullyrðir fréttamiðillinn 444.hu, samkvæmt heimildum innan úr ungverska hernum, að með öllu sé óljóst til hvaða aðgerða ungversku hermönnunum sé ætlað að grípa sem draga eigi úr fólksflutningunum. 

Hugmyndin sem ungversk yfirvöld hafa reynt að selja almenningi er sú að með hernaðaraðstoðinni eigi að draga úr ásókn flóttafólks til Evrópu. Ungverjaland er hins vegar fjarri því að vera plagað af flóttafólks krísunni, einfaldlega vegna þess að ríkisstjórn Viktors Orbán hefur kyrfilega lokað landamærum landsins fyrir flóttafólki. 

Maribor. Predsednik vlade Robert Golob je na delovnem kosilu v Mariboru gosti predsednika vlade Madzarske Viktorja Orbana.

Þá er því haldið fram að hluti verkefnisins verði að veita heilbrigðisþjónustu til handa flóttafólki og styðja við fjárfestingar ungverskra fyrirtækja í landinu þegar kemur að vatnsveituverkefnum, nútímavæðingu landbúnaðar og uppbyggingu rafrænnar stjórnsýslu. 

Allt er þetta mjög kúnstugt í ljósi þess að tengsl milli landanna tveggja hafa, fram til þessa, verið engin. Viðskipti milli Tjad og Ungverjalands eru þannig ekki til staðar, ríkin eiga sér enga sameiginlega sögu og fáir ef nokkrir Ungverjar eru búsettir í Tjad. Ungversk fjárfesting í Tjad er þá engin. Þrátt fyrir þetta er því haldið fram í röksemdum fyrir herförinni að verja eigi ungverska borgara og hagsmuni í Tjad. Sem ekki eru til staðar.

Í samþykkt ungversku ríkisstjórnarinnar fyrir herförinni, með öllu því sem henni átti að tengjast, er meðal annars gert ráð fyrir að flutt verði hergögn til Tjad frá Ungverjalandi. Samkvæmt heimildum 444.hu er þar um að ræða að vopn frá Sovét-tímanum sem til eru í Ungverjalandi og voru á sínum tíma ætluð til landvarna. Þau sömu vopn sem ríkisstjórn Orbáns neitaði að afhenda Úkraínu til varnar gegn árásarstríði Rússa. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí