Yfir 24 milljónir manns í sunnanverðri Afríku standa frammi fyrir hungri, vannæringu og vatnsskorti vegna annars vegar þurrka og hins vegar flóða. Alþjóðlegu hjálparsamtökin Oxfam vara við því að staða mála í sunnanverði álfunni gæti endað í „ólýsanlegri mannúðarkrísu“.
Oxfam gaf út viðvaranir þessa efnis síðastliðinn miðvikudag í kjölfarl þess að Zimbabwe lýsti þurrka þar í landi sem náttúruhamförum á landsvísu og neyðarástandi. Slíkar yfirlýsingar höfðu áður verið gefnar út í Zambíu og í Malaví.
Forseti Zimbabwe, Emmerson Mnangagwa, sagði í yfirlýsingu að yfir 2,7 milljónir manns í landinum myndu líða hungur á þessu ári og þörf væri á neyðaraðstöð að jafnvirði hátt í þriggja milljarða króna til að bregðast við.
Þurrkarnir eru drifnir áfram af El Niño veðurfyrirbrigðinu, sem er veðurkerfi sem á sér uppruna í sunnanverðu Kyrrahafi. Veðurkerfið er óvenju öflugt um þessar mundir og hefur, eins og fjallað hefur verið um, valdið miklum usla í Suður-Ameríku þar sem logað hafa skógareldar af áður óþekktri stærðargráðu á þessu ári, sem rekja má til áhrifa El Niño. Ástæðan er loftslagsbreytingar af mannavöldum, sem auka á meðalhita og knýja veðurkerfið áfram af enn meira afli en verið hefur. Loftslagsbreytingarnar, sem að mestu eru tilkomnar vegna bruna á jarðefnaeldsneyti, valda hækkandi hita, sem svo veldur tíðari og skæðari veðurfyrirbrigðum, þurrkum, flóðum, ofurhitum og gróðureldum, en einnig lægra hitastigi á vissum stöðum að vetri, ofsafenginni úrkomu sem svo veldur skriðuföllum og öðrum náttúruhamförum.
El Niño hefur áhrif til hækkunar hita í sunnanverðri Afríku og dregur einnig úr úrkomu. Þegar svo rignir er jarðvegur svo þurr að jörðin getur ekki tekið við regnvatninu, sem aftur veldur flóðum. Þurrkatímabil er framundan í sunnanverðri Afríku, það hefst alla jafna í þessum mánuði. En stærstur hluti sunnanverðrar álfunnar hefur þegar þurft að búa við langvarandi þurrka. Þar á meðal eru ríki á borð við Angóla, Botswana, Lýðstjórnarlýðveldið Kongó, Malaví, Mósambík, Namibía, Zambía og Zimbabwe.
Frá síðara hluta janúar og til febrúar hefur magn úrkomu í sunnanverðri álfunni mælst hið minnsta í að minnsta kosti fjörutíu ár, eftir því sem segir í nýlegri skýrslu Samhæfingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA). Í miðhluta álfunnar var febrúar hinn þurrasti í yfir 100 ár.
Í Zambíu, Malaví og í miðhluta Mósambík hafa ofsafengnir þurrkar skemmt yfir tvær milljónir hektara uppskeru. Zambía lýsti yfir neyðarástandi 29. febrúar síðstliðinn og það gerði Malaví 23. mars síðastliðinn einnig. Það er fjórða árið í röð sem það hefur verið gert í síðarnefnda landinu.
Sunnanverð Afríka er gríðarlega viðkvæm þegar kemur að loftslagsbreytingum, þrátt fyrir að bera ekki ábyrgð á nema agnarlitlum hluta þeirrar mengunar sem knýr breytingarnar áfram. Þannig ber Mósambík ábyrgð á 0,2 prósentum losunar á heimsvísu en samkvæmt Oxfam blasir hungur við þremur milljónum manns í landinu.
Framkvæmdastjóri neyðaraðstoðar Oxfam fyrir sunnanverða Afríku, Machinda Marongwe, segir að neyðarástand ríki á svæðinu öllu og kallaði eftir því að stuðningsaðilar veittu þegar í stað miklum fjármunum til neyðaraðstoðar, til að koma í vega fyrir ólýsanlegar hörmungar.