Frétt Samstöðvarinnar um endurtekningar þátta hjá Ríkisútvarpinu vakti athygli og leiddi til mikilla viðbragða. Hvað er að hjá Rúv? Sami þáttur endurfluttur dag eftir dag – Samstöðin (samstodin.is)
Fram kemur hjá almenningi á facebook-síðu Samstöðvarinnar að Ríkisútvarpið, þrátt fyrir níu milljarða króna forgjöf og yfirráð á auglýsingamarkaði, standi sig ekki í stykkinu.
„Glatað að reyna að hlusta á Rás 1 núna,“ segir Ólöf Jónsdóttir um fyrrum flaggskip Rúv. Virðist sem endurtekningar sem fjallað var um í frétt Samstöðvarinnar séu aðeins dropi í hafið og spyrja margir hvað þeir séu þá að fá fyrir peninginn.
Þórdís Hafsteinsdóttir segir: „Núna er verið að endursýna Dýrin mín stór og smá, búið að sýna þau oft. Bíómyndirnar eru endursýndar, aldrei nýjar myndir. Þessi sem er útvarps- og sjónvarpsstjóri er ekki starfi sínu vaxinn.“
Sigurður Haraldsson segir Stefán Eiríksson versta útvarpsstjóra frá upphafi.
Hannes Jónsson segist áður alltaf hafa hlustað á Rás 2 í bílnum.
„Hættur því. Alltaf sama fólkið,“ segir Hannes.
Þá ræða sumir að lítill klíkuhópur sem starfsmenn Rúv virðist bera hlýhug til, sé nánast alltaf kallaður til að álitsgjafaborðinu á sama tíma og aðrir séu úti í kuldanum.
„Það sem hefur sig mest frammi er upp til hópa fremur einsleitt og leiðinlegt útvarpsfólk. Nefni engin nöfn en sumir þarna virðast vera fastráðnir til lífstíðar sama hversu metnaðarsnautt og flatneskjulegt þetta er alltsaman hjá þeim.“
Sumir lesendur segjast telja að íhaldið, það er Sjálfstæðisflokkurinn, hafi meðvitað eyðilagt Rúv. Mögulega til að einkavæða almannaútvarpið þegar landsmenn hafa gefist upp á því.
Sammerkt er með athugasemdum lesenda Samstöðvarinnar að tímabært sé að skipta um haus og skaft í stjórnun eins og einn orðar það.
Margir horfa til liðins tíma og minnast gullaldarskeiðs, sem nú sé minningin ein.
Atli Þór Matthíasson segir nú orðið vanta alla fjölbreytni í dagskrá Rúv.
„Man í gamla daga, þá voru alltaf tónleikar á föstudagskvöldum og útvarpið spilaði meira af óskalögum.“
„Úrbóta er þörf,“ segir Hulda Magnea Jónsdóttir.
„Endalausar endurtekningar á þáttum, lélegur lestur á fréttum, er að hlusta núna á fréttir, hvar er Laxadalsheiði? Fjármunirnir sem fara í þessa stofnun eru gríðarlegir. Kominn tími á vönduð vinnubrögð.“
Þá segir Magný Jóhannesardóttir að það sé ekki eftir neinu að bíða að loka Ríkisútvarpinu.
Annar segist nú þegar hafa jarðsungið Ríkisútvarpið.
„Það er sama sem ekkert í boði, endalaust endurflutt,“ segir ein sem segist hafa fengið nóg fyrir löngu.
„Svo er fólk skikkað til að borga af þessu og ef foreldrar eru með barn eða börn 18 ára þá eru þau skikkuð til að borga , þó að allir vita að þau horfa ekki á sjónvarpið,“ segir fyrrnefnd Magný.
Filippía Guðbrandsdóttir segist heyra sama þáttinn í útvarpi allt að þrisvar sinnum sömu helgina.
Rósa Kristín Marínósdóttir segist svo til hætt að fylgjast með Rúv.
Áfram sitja Íslendingar þó uppi með nefskattinn sinn og greiða hann hvort sem þeim líkar efni Ríkisútvarpsins eða ekki.
Einn lesandi tekur fram að hann vonist til að stjórnendur hjá Ríkisútvarpinu lesi tilvitnuð ummæli.
Hitt má nefna Rúv til tekna að bent hefur verið á að þjónusta fréttastofu hafi verið til mikillar fyrirmyndar þegar gaus í síðustu viku með aukafréttatímum og útsendingu á samtengdum rásum.
Orð lögreglustjórans á Suðurnesjum í gær vöktu mikla athygli í Morgunblaðinu þegar Úlfar Lúðvíksson sagði að ljósmyndari á vegum Rúv hefði fyrir áramót sent vond skilaboð inn í samfélagið og skemmt fyrir öðru fjölmiðlafólki þegar hann reyndi að brjótast inn í mannlaust hús í Grindavík.