„Hvað er að hjá RÚV?“
Þannig spyr eldri borgari á Akureyri, Unnur Þorsteinsdóttir í færslu á facebook. Unnur segir að hún hafi sjaldnast tök á að fylgjast með Mannlega þættinum nema í endurflutningi á kvöldin. En nú beri svo við að þótt Mannlegi þátturinn sé auglýstur í dagskrá á kvöldin hafi þáttur með KK verið sendur út kvöld eftir kvöld á þeim tíma sem hinn þátturinn hafi verið auglýstur.
„KK er stórkostlegur en sami þáttur þrjá daga í röð er dálítið mikið. Og hvert er þá búið að flytja endurtekningu Mannlega þáttarins?“ Spyr Unnur.
Samstöðin greindi frá því í gær að Rúv áætlar aukningu á auglýsingatekjum um 17,4 prósent og sogar með því tekjumöguleika einkarekinna miðla til sín.
Sala auglýsinga verður 2024 samkvæmt áætlun á fjórða milljarð króna. Þá mun fast framlag frá ríkinu beint úr vösum neytenda hækka um 3,5 prósent í um sex milljarða.
Að hlustendur sitji uppi með sömu þættina endurflutta 2-3 daga í röð þegar stofnunin fær með forréttindastöðu sinni níu milljarða króna til að spila úr, bendir til að spurning Unnar eigi fullan rétt á sér.
„Hvað er að hjá RÚV?“