Kanadastjórn sögð beita blekkingum og halda áfram að vopna Ísraelsher

Mannréttindasamtök í Kanada saka ríkisstjórn Justins Trudeau forsætisráðherra um að blekkja almenning í tengslum við vopnasölu til Ísrael. Kanadísk fyrirtæki hafa selt vopn til Ísraela fyrir um 84 milljónir Bandaríkjadollara frá því ríkisstjórn Trudeau tók við völdum 2015, þar af fyrir yfir 15 milljónir dollara árið 2022 en nýrri tölur liggja ekki á lausu. Vopnasalan hefur sætt aukinni gagnrýni eftir að Ísraelar hófu mannskætt innrásarstríð sitt á Gaza-ströndinni. 

Í gildi eru lög í Kanada sem gera ríkisstjórninni óheimilt að senda herbúnað til erlendra aðila, sé hætta á að þau hin sömu hernaðartól verði notuð við mannréttindabrot. Hins vegar eru ýmsar glufur til staðar í lagasafninu, auk þess sem óljóst virðist hvað það í raun er sem Kanada hefur flutt til Ísrael. Hvoru tveggja hefur flækt tilraunir til að setja tappa í vopnasöluna. 

Tugir mannréttindasamtaka og trúfélaga, þar á meðal Oxfam, Amnesty International og Læknar án landamæra, skoruðu síðastliðinn mánudag á Trudeau að stöðva vopnasöluna, með þeim rökum að hún væri brot á kanadískum og alþjóða lögum. 

Þrýstingur á kanadísku ríkisstjórnina hefur aukist verulega í málinu en á sama tíma hefur utanríkisráðuneytið reynt að gera lítið úr hlutverki Kanada við að aðstoða Ísraela við að byggja upp vopnabúr sitt. Í svari við fyrirspurn fréttamiðilsins Al Jazeera síðastliðinn föstudag sagði ráðuneytið að það gæti staðfest að Kanada hefði engin beiðni borist um, og þar með hefðu engin leyfi verið gefin fyrir, sölu og flutningi á vopnakerfum eða léttum vopnum til Ísraels í yfir 30 ár. Heimildir sem veittar hefðu verið síðan 7. október síðastliðinn, þegar Ísraelar hófu árásarstríð sitt á Gaza-ströndinni, hefðu eingöngu verið veittar fyrir útflutningi á skaðlausum hernaðarbúnaði. 

Gagnrýnendur ríkisstjórnar Trudeau segja þetta hins vegar blekkingar og benda á að samkvæmt tölum ríkisstjórnarinnar sjálfrar hafi útflutningur á herbúnaði til Ísraels árið 2022 numið 15 milljónum Bandaríkjadollara. Michael Bueckert talsmaður samtakanna Kanadamenn fyrir réttlæti og friði í Mið-Austurlöndum, segir að kanadísk fyrirtæki hafi flutt út hergögn að verðmæti ríflega 84 milljóna Bandaríkjadollara í valdatíð Trudieau. “Og þau hafa haldið áfram að samþykkja vopnaflutninga frá 7. október, þrátt fyrir augljósa hættu á þjóðarmorði á Gaza,” sagði Bueckert við Al Jazeera. 

Vandinn í umræðunni felst í því að þó Kanada sé mögulega ekki að flytja fullbúin vopnakerfi til Ísrael eiga löndin tvö engu að síður í verulegum vopnaviðskiptum. Langstærstur hluti útflutnings Kanada á herbúnaði til Ísrael er í formi íhluta og tæknikerfa, meðal annars í rafbúnaðar og flugvéla íhluta. Hins vegar skortir upplýsingar um hvað raunverulega er flutt út. Ekki er vitað hvaða fyrirtæki það eru sem að flytja herbúnaðinn út né í hvað hann sé í raun og veru notaður. 

Mannréttindalögfræðingar og aktívistar telja sig þá hafa rökstuddan grun um að hernaða íhlutir frá Kanada séu fluttir til Ísrael í gegnum Bandaríkin, meðal annars íhlutir í orrustuþotur. Hins vegar skortir allar upplýsingar frá hinu opinbera þar um og kerfið þegir þunnu hljóði. 

Hátt í 28 þúsund Palestínumenn eru látnir eftir að Ísrael hóf árásarstríð sitt á Gaza. Þar af eru að minnsta kosti 11.500 börn. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí