Almannavarnir voru að senda frá sér tilkynningu þar sem segir að samkvæmt nýjustu upplýsingum frá HS Orku verði seinkun á því að hægt verði að hleypa heitu vatni á nýju hjáveitulögnina við Njarðvíkurlögnina sem hraun flæddi yfir í gær.
Þetta eru vonbrigði fyrir íbúa ískaldra heimila á Suðurnesjum sem búa ekki lengur við neitt heitt vatn. Síðast í morgun var vonast til að hægt yrði að koma heitu vatni á síðdegis. Orkumálastjóri upplýsti í beinni útsendingu á Samstöðinni í gær að góðar líkur væru á að heita vatnið færi aftur að flæða í dag.
HS Orka hefur gefið út tilkynningu um að starfsmenn hafi unnið þrekvirki við vandasamar viðgerðir í 14 stiga frosti.
Það gæti tekið allt að tvo sólarhringa að ná fullum þrýstingi á lögnina, jafnvel þótt hjáveituaðgerðin heppnist í kvöld. Því þarf fólk að fara sparlega með vatn áfram, segir í tilkynningu frá Almannavörnum.
Í samtali Samstöðvarinnar í gærkvöld við Hilmar Braga Bárðarson, blaðamann Víkurfrétta, kom fram að hluti eldri borgara í köldum húsum á Suðurnesjum hefði áhyggjur af ástandinu.
Samstöðin þekkir dæmi um að sjúkir og aldraðir hafi verið fluttir frá Suðurnesjum inn á upphituð heimili.
Starfsemi Keflavíkurflugvallar hefur ekki raskast til þessa, en fremur kalt er í flugstöðinni að sögn farþega.