Indverska öryggislögreglan skaut í morgun táragasi á mótmælendur úr hópi bænda, í tilraun til að stöðva þá á leið sinni inn í höfuðborgina Nýju-Delí.
Bændurnir, sem taldir eru í þúsundum, eru á leið til höfuðborgarinnar til mótmæla eftir að viðræður við stjórnvöld um umbætur í landbúnaði sigldu í strand. Krafa bænda er að stjórnvöld auki verulega við stuðning sinn til landbúnaðar. Þúsundir indverskra bænda taka eigin líf á hverju ári sökum fátæktar, skulda og þeirrar staðreyndar að uppskera bregst vegna sífellt aukinnar óreglu í veðurfari, af völdum loftslagsbreytinga.
Öryggislögreglunni lenti saman við bændurnar nálægt Ambala, sem er í um 200 kílómetra norður af Nýju-Delí. Lögreglan hefur girt aðkomuleiðir inn í borgina af með gaddavírsgirðingum og vegatálmum. Fjöldasamkomur hafa verið bannaðar í höfuðborginni og netsamband rofið á ákveðnum svæðum.
Viðræður bænda og stjórnvalda sigldu í strand í gær, mánudag, þegar ekki náðist samstaða um kröfur bænda um frekari stuðning, verðlagningu á afurðum og niðurfellingu lána, auk annars.
Indverkskir fjölmiðlar hafa birt myndefni þar sem hundruð dráttarvéla sjást stefna að höfuðborginni. Þrýstingur á stjórnvöld er verulegur þar eð gríðarlegur fjöldi Indverja hefur atvinnu af landbúnaði, um tveir þriðju hlutar þeirra 1,4 milljarða manns sem Indland telur. Landbúnaður stendur undir um það bil fimmtungi af vergri þjóðarframleiðslu í Indlandi.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem indverskir bændur stefna til höfuðborgarinnar til mótmæla. Árið 2021 stóðu fjöldamótmæli tugþúsunda bænda í Nýju-Delí um langa hríð og bændur settu upp búðir í höfuðborginni. Mótmælin urðu ofbeldisfull og í það minnsta 700 manns létu lífið í þeim. Niðurstaðan af þeim mótmælum að stjórnvöld undir forystu Narenda Modi forsætisráðherra komu upp samráðsvettvangi með bændum um leiðir til að tryggja raunhæft verð á landbúnaðarafurðum. Fundað hefur verið ítrekað frá þeim tíma en árangur af samráðinu enginn orðið.