Ekki stendur til samkvæmt heimildum Samstöðvarinnar að Rúv eyði fyrri frétt sinni um að ráðamenn hér á landi hafi farið með rangfærslur um hvort Norðurlöndin hafi aðeins séð um að bjarga eigin ríkisborgurum frá Gaza.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra fer fram á þetta.
Guðrún segir í yfirlýsingu að í kvöldfréttum í gær hafi fréttastofa Rúv greint frá því að Guðrún hafi farið með ósannindi varðandi málefni fólks á Gaza. „Sú fullyrðing RÚV er röng,“segir Guðrún og vísar til þess að síðan hún lét ónákvæm orð falla um flóttamenn hafi hún leiðrétt sig.
„Samt kýs RÚV að vitna í upphafleg orð mín en ekki í leiðrétta frétt,“ segir Guðrún.
„Við verðum að geta gert þá kröfu til Ríkisútvarpsins að fréttaflutningur þess sé áreiðanlegur og hlutlægur. Það á sérstaklega við í viðkvæmum málum eins og því sem hér ræðir. Mér þætti eðlilegt að Ríkisútvarpið fjarlægði þessa frétt og birti jafn áberandi leiðréttingu í sínum fréttatíma og á sínum vef þar sem þessi ranga fullyrðing er dregin til baka.“
Ekki stendur til að bregðast við kröfu Guðrúnar eftir því sem heimildir Samstöðvarinnar herma innan Ríkisútvarpsins.
Samstöðin hefur sent fréttastjóra Rúv formlega fyrirspurn um málið og bíður frekari upplýsinga.
Fágætt er ef ekki einsdæmi að ráðherrar krefjist þess að fréttum almannaútvarps um þá sjálfa sé eytt.
Sjá færslu ráðherrans hér: Facebook
Mynd: Ríkisútvarpið.