Breski forsætisráðherrann Rishi Sunak hæddist að því í umræðum í breska þinginu í gær að Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, gæti ekki skilgreint hvað kona væri. Þetta gerði Sunak þrátt fyrir að vera full ljóst að í þingsalnum væri móðir hinnar myrtu transstúlku, Briönnu Ghey. Framganga Sunak hefur vakið mikla reiði víða og hefur Verkamannaflokkurinn krafið hann um afsökunarbeiðni. Blaðafulltrúi Sunak neitar því hins vegar að ummælin hafi verið transfóbísk.
Tveir 16 ára gamlir unglingar voru í síðustu viku dæmdir í annars vegar 20 og hins vegar 22 ára fangelsi fyrir morðið á Ghey, sem var stungin 28 sinnum með hnífi. Þingmenn Verkamannaflokksins höfðu boðið móður Ghey að vera viðstödd vikulegan fyrirspurnartíma í þinginu og stóð til að hún myndi hitta flokksleiðtogann Starmer að fundinum loknum. Sunak var vel kunnugt um að móðirin væri viðstödd þingfundinn.
Í orðaskiptum við Starmer sagði Sunak að það að geta skilgreint hver væri kona væri á lista yfir svikin loforð Starmers, „en það er þó ekki nema 99,9 prósent u-beygja.“ Starmer kom upp og svaraði því til að af öllum vikum til að hafa yfir þetta orðfæri hefði Sunak valið þá þegar móðir Briönnu væri í salnum væri skammarlegt.
Þessi athugasemd Sunaks er að líkindum tilvísun í orð Starmer frá því í apríl á síðasta ári. Hann var þá spurður um hug sinn varðandi málefni transfólks og svaraði því til að auðvitað hefðu „99,9 prósent kvenna ekki typpi“.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Sunak notar sama orðfæri til að reyna að ná höggi á andstæðing sinn Starmer, það gerði hann einnig á þingfundi 24. janúar síðastliðinn. Í október á síðasta ári sagði Sunak í lokaræðu landsþings Íhaldsflokksins breska: „Karlmaður er karlmaður og kona er kona, það eru bara algild sannindi […] Við eigum ekki að láta þvinga okkur til að trúa því að fólk geti verið af hvaða kyni sem það vill. Það getur það ekki.“
Blaðafulltrúi Sunaks sagði í gær að forsætisráðherrann hefði verið að draga upp lista af þeim u-beygjum sem Verkamannaflokkurinn hefði tekið varðandi kosningaloforð sín og það væri fullkomlega eðlilegt að það væri gert. Hún samþykkti ekki að ummæli Sunaks væru transfóbísk.
Talskona Verkamannaflokksins sagði aftur á móti að flokksfólk teldi orðfæri Sunaks sannarlega transfóbískt, hann ætti að hugsa sinn gang og biðjast afsökunar.