Að minnsta kosti 45 almennir borgarar voru drepnir í fjöldamorðum eþíópískra hermanna í síðasta mánuði. Meðal þeirra látnu var kona með barni. Hvoru tveggja Evrópusambandið og Bandaríkin hafa kallað eftir óháðri rannsókn á glæpunum.
Ódæðisverkin voru framin af hermönnum stjórnarhersins í Amhara-héraði, í borginni Merawi. Vægðarlaus átök hafa staðið í héraðinu frá því í ágúst á síðasta ári þegar vígamenn Fano-hreyfingarinnar hófu stríðsrekstur gegn eþíópíska hernum sem viðbragð við áætlunum ríkisstjórnar landsins um að afvopna þá.
Fyrir þann tíma höfðu vígamenn Fano barist við hlið hersveita stjórnarhersins gegn TPLF uppreisnarsveitunum í Tigray-héraði. Eftir að friður komst á í Tigray hugðust stjórnvöld afvopna Fano, sem og aðrar vígasveitir en við það var ekki komandi.
Íbúar í Merawi hafa lýst margra klukkutíma hörðum átökum sem áttu sér stað 29. janúar síðastliðinn milli sveita stjórnarhersins og vígamanna Fano. Bardögunum fylgdu síðan húsrannsóknir stjórnarhermanna.
BBC greinir frá því að vitni hafi lýst aðförunum þannig að hermenn hafi farið hús úr húsi og hótað íbúum, sakað þá um að hýsa vígamenn og útvega þeim matvæli. Fólk var dregið út á götu og skotið þar. Flestir sem hermenn myrtu voru ungir karlmenn.
Búið er að bera kennsl á 45 látna borgara en mannréttindastofnun Eþíópíu telur allar líkur á að fjöldi fórnarlamba sé enn og mun hærri.
Eftir að vígamenn Fano höfðu náð töluverðu landsvæði á sitt vald í héraðinu náði stjórnarherinn yfirhöndinni. Til þess hefur hann beitt drónaárásum og stórskotaárásum. Vitni lýsa því svo að skothríð sé tilviljanakennd og ofbeldið standi tímunum saman. Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna bera að í desember hafi þannig verið skotið á skóla og hópferðamiðstöðvar.
20 milljónir þurfa neyðarhjálp
Staða mála í Eþíópíu er grafalvarleg en hungursneyð herjar nú á hluta landsins. Alvarlegust er staðan í norðanverðu Tigray-héraði þar sem íbúar eru enn í sárum eftir stríðsátök. Þar hafa miklir þurrkar staðið um langa hríð sem hafa valdið uppskerubresti.
Upplýsingar hafa borist frá afskekktum svæðum héraðsins um hundruð barna sem látist hafa úr hungri.
Staðan er sögð mjög alvarleg og ekki síst í ljósi tímasetningarinnar nú. Aðaluppskerutíminn í Tigray héraði, og í Amhara-héraði, er í nóvember svo undir venjulegum kringumstæðum ætti að vera til nægur matarforði á þessum tíma árs.
Samræmingarskrifstofa aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum, OCHA, telur að yfir 20 milljónir Eþíópíubúa séu í þörf fyrir neyðaraðstöð og matavælahjálp. Aðeins þriðjungur þeirra sé hins vegar að fá slíka aðstoð.
Starfsmenn hjálparsamtaka bera stöðuna nú saman við hungursneyðina ægilegu árið 1984, þegar allt að ein milljón manns lést af völdum hungurs og vannæringar. Yfirvöld í höfuðborginni Addis Ababa neita þó, rétt eins og þá, að hungursneyð sé yfirvofandi og halda því fram að unnið sé að því að veita aðstoð.