Þeir sem nota strætó segja farir sínar ekki sléttar þessa dagana.
Mörg dæmi hafa verið nefnd um að strætóbílstjórar séu á undan áætlun síðustu daga. Þeir aki á undan farþegum í stað þess að bíða eftir þeim að því er fram kom í þættinum Vikuskammturinn á Samstöðinni í gær.
Dæmi voru nefnd í þættinum um bílstjóra sem sá farþega hlaupa á eftir bílnum og datt í snjónum. Samkvæmt því sem fram kom hló bílstjórinn en stoppaði ekki vagninn.
„Botn mannlegrar tilveru,“ sagði einn viðmælenda.
Samstöðinni hafa einnig borist upplýsingar um sérstaka stimamýkt sumra vagnstjóra þannig að alhæfingar eiga ekki við um þjónustu strætó. Notendur strætó hafa bent á að í illviðrinu síðustu vikur skipti sérstaklega miklu máli að vagnar skilji ekki farþega eftir í kuldanum, þar sem það getur valdið heilsutjóni að nopra lengi eftir næsta vagni auk annars skaða fyrir samfélagið.
Sjálfstæðismenn hafa ítrekað talað fyrir einkavæðingu strætó – meðal annars vegna þjónustuskorts.
Strætóumræðan er snemma í þættinum sem mæla má með, enda mörg mál krufin. Sjá Vikuskammtinn í heild hér.