Breiðfylkingin náði bráðabirgðasamkomulagi við Samtök atvinnulífsins (SA) fyrir helgi um nauðsynleg forsenduákvæði í kjarasamningunum sem nú er verið að semja um. VR kaus að slíta sig frá Breiðfylkingunni og stendur því utan samkomulagsins.
Forsenduákvæðin sem Breiðfylkingin hefur náð samkomulagi um við SA innihalda tvö tímasett endurskoðunarákvæði í fjögurra ára kjarasamningi.
Fyrra ákvæðið inniber að hafi ársverðbólga ekki lækkað niður fyrir tiltekið mark er mögulegt að segja kjarasamningum upp. Endurskoðunarvinna hefst í apríl og er heimilt að segja upp samningi í lok október, að uppfylltum skilyrðum.
Þá þurfa stjórnvöld jafnframt að hafa staðið við gefin fyrirheit í tengslum við kjarasamninga.
Seinna endurskoðunarákvæðið er tímasett ári síðar, í október 2026. Þá verða kjarasamningar aftur uppsegjanlegir sé ársverðbólga ekki komin niður fyrir tiltekið mark.
Með ströngum skilyrðum varðandi verðbólgu munu ákvæðin tryggja kaupmátt og um leið stuðla eindregið að lækkun vaxta, enda er það stefna Seðlabankans að miða vaxtastig við verðbólgu á hverjum tíma.
Heimilt að bæta í samninginn í stað uppsagnar
Standist forsendur kjarasamninga ekki leiðir það þó ekki óhjákvæmilega til þess að kjarasamningum verði sagt upp. Mögulegt er að semja um viðbragð til að tryggja framhald samningsins og er það í höndum launa- og forsendunefndar, sem skipuð verður, að reyna að ná saman um slík viðbrögð.
Þá er jafnframt hengt við þessi ákvæði að stjórnvöld verði að hafa staðið við gefin fyrirheit í tengslum við kjarasamninga á sama tíma. Hver þau fyrirheit verða á eftir að koma í ljós, en Breiðfylkingin hefur gert kröfu um að hin opinberu tilfærslukerfi verið endurreist, með tilheyrandi auknum greiðslum barnabóta, húsnæðisbóta og vaxtabóta til launafólks.
Frétt af vef Eflingar.