Talibanar tóku í dag tvennt af lífi í opinberri aftöku í suðaustur Afganistan. Þúsundir manns urðu vitni að aftökunum sem fóki fram á leikvangi í Ghazniborg. Meðal þeirra var fréttamaður fréttaþjónustunnar AP.
Samkvæmt fréttamiðlum í Afganistan var aftakan fyrirskipuð bæði af dómstólum, sem og af leiðtoga Talibana, Hibatullah Akhundzada, vegna meintra glæpa fólksins. Ekki er ljóst hvers kyns fólkið var og Talibanar hafa ekki brugðist við fyrirspurnum um hver þau voru eða hverjir meintir glæpir þess voru.
Samkvæmt frásögn AP tróðst fólk að og ruddist inn á leikvanginn. Aftakan fór fram með skothríð, annað fórnarlamganna var skotið átta sinnum og hitt sjö sinnum. Lík þeirra voru flutt burt í sjúkrabílum.
Um er að ræða þriðju og fjórðu opinberu aftökuna í Afganistan síðan Talibanar hrifsuðu þar til sín völdin á nýjan leik árið 2021. Á tíunda áratugnum, undir fyrri stjórn Talibana, voru opinberar aftökur, hýðingar og grýtingar hins vegar reglulega viðhafðar.