Þau ummæli forseta ASÍ á Rúv í morgun að hann eigi síður von á verkfalli og að viðsemjendur kjarasamninga muni að líkindum ná landi þegar sest verður að samningaborðinu á ný, eftir að upp úr slitnaði, hafa vakið kurr innan breiðfylkingar láglaunafólks.
Samstöðin hefur rætt við fólk sem vill ekki koma fram undir nafni. Ein heimild segir ummæli Finnbjörns A Hermannssonar, forseta ASÍ, í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun, hreinlega galin.
Önnur heimild bendir á að forseti ASÍ hafi enga aðkomu að hugmyndum eða skipulagningu Eflingar á verkföllum. Það sé samninganefnd félagsins sem ákveður slíkt.
Einnig er nefnt að það kunni að veikja vopn láglaunafólks sem sé tilbúið í verkföll að forseti ASÍ tjái sig um svo viðkvæmt mál á þessum tímapunkti.
Eftir því sem Samstöðin kemst næst eru þau hjá breiðfylkingunni nú að ráða ráðum sínum, sitjandi á rökstólum.
„Ég á svona frekar von á því að fólk komi aftur að borðinu og reyni að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið,“ segir ein heimild innan breiðfylkingarinnar.