Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir mál kennarans sem er hættur störfum hjá Menntaskólanum á Laugarvatni vegna rasískra ummæla, einn anga þess að almennt sé umræða í þjóðfélaginu orðin ljótari og óvægnari en áður.
Hann vill að öðru leyti ekki tjá sig sérstaklega um mál ML-kennarans.
„Mér finnst ég alltaf sjá meira og meira að fólk tjáir sig á opnum vefsíðum eins og það ætti helst ekki að orða hlutina nema þá í innstu myrkrum eigin sálar,“ segir Guðjón í samtali við Samstöðina. „Þetta er áhyggjuefni,“ bætir hann við.
Eitt hlutverk kennarastéttarinnar er að þjálfa nemendur í að ræða hlutina málefnalega, ræða sig að eðlilegri niðurstöðu með eðlilegum hætti með sóma, að sögn Guðjóns. Því má áætla að málið sé nokkurt högg fyrir kennarastéttina.
Framhaldsskólakennarar sem Samstöðin hefur rætt við vilja lítið tjá sig opinberlega um málið en flestir segja mál ML-kennarans alvarlegt vegna þess að kennarar gegni ákveðnu samfélagslegu hlutverki. Það sé alvarlegt þegar framferði gangi í berhögg við skyldur.
Siðareglur kennara eru skýrar að sögn Guðjóns. Jafnréttisstefna Kennarasambands Íslands sé einnig skýr. Almenn lög segi einnig að fólk þarf að vanda sig í orðræðu og athöfnum, jafnt innan skóla sem utan.
Guðjón segir dapurlegt þegar athyglin að skólastarfi beinist svo mjög að einstaklingi sem hefur farið yfir strikið og sært aðra með ummælum, jafnvel þá sem síst skyldi.
„Þá missum við kennarar trúverðugleika,“ segir hann. Við þurfum að vanda okkur við að halda honum. Það er beinlínis í siðareglum okkar að við þurfum að virða heiður stéttarinnar við öll tækifæri,“ segir formaður Félags framhaldsskólakennara.