Líklegt er talið að ákvörðun Seðlabankans um að lækka ekki stýrivexti hafi áhrif á vilja láglaunafólks til að samþykkja kjarasamninga.
Atkvæðagreiðsla VR um samningana sem voru undirritaðir við SA hjá ríkissáttasemjara eftir miðnætti síðastliðið miðvikudagskvöld, klárast í hádeginu á morgun.
„Ég er nokkuð viss um að ákvörðun Seðlabankans mun hafa áhrif á niðurstöðuna,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR í samtali við Samstöðina. „Hversu mikil áhrif er erfitt að segja,“ segir hann.
Mikil reiði er í samfélaginu að Seðlabankinn hafi ekki lækkað vexti. Hún birtist m.a. í ummælum verklýðsforkólfa sem segja að í öðrum ríkjum yrðu uppþot á götum úti vegna hávaxtaumhverfisins. Neytendasamtökin spyrja hvort lækningaraðferðir Seðlabankans til að hemja verðbólgu drepi sjúklinginn líkt og Samstöðin sagði frá fyrr í dag.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, segir í samtali við Samstöðina að ríkið hefði þurft að boða aðhald útgjalda til að mæta fjárþörf vegna kjarasamninganna. Þótt niðurskurður sé sársaukafull aðgerð sé hann heppilegri en lántaka.
Vaxtalækkunn, þótt ekki hefði verið nema upp á 0,25, hefði bætt kjör láglaunafólks og millistéttar og verið sterk skilaboð um að lækkunarferlið væri hafið,“ segir Sigmar.
„Nú sitja menn og klóra sér í kollinum. Til hvers var samið ef ekki fylgja lægri vextir á tímum verðbólgu. Ég ímynda mér að bæði atvinnurekendur og launþegar séu ekki sáttir.“
Á samfélagsmiðlum má lesa margar færslur úr hópi almennings un að Seðlabankinn og ríkisstjórnin hafi gefið þeim fingurinn sem fórnuðu kjarahækkunum í skiptum fyrir vaxtalækkun á tímum sligandi lántökukostnaðar og verðbólgu.