Seðlabankinn segir eiginfjárstöðu fyrirtækja sterka en „greiðsluerfiðleikar“ bíði heimila

„Fjármálakerfið hér á landi stendur traustum fótum“ eru upphafsorð yfirlýsingar fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans sem kom út í morgun.

Eiginfjárstaða heimila og fyrirtækja sé „sterk“ og lítið beri á vanskilum. Þó séu „teikn á lofti“ um að það sé byrjað að hægja á efnahagslífinu og þyngri greiðslubyrði lána sem saman gæti þýtt greiðsluerfiðleika. Þá er nefnt að það hefur „þrengt að ráðstöfunartekjum heimila“.

Eins og svo oft áður eru yfirlýsingar Seðlabankans orðaðar með svo almennum og torfkenndum hætti að af þeim mætti skilja að ýmist sé staðan góð, slæm eða hvorki né.

Sé yfirlýsingin þýdd yfir á mannamál má lesa úr þessari yfirlýsingu að fyrirtæki og það fólk sem á eignir eða hefur gömul lán eða góðar tekjur til að greiða af þeim, hafa það í raun ósköp gott.

Allir hinir finna fyrir áhrifum „þrálátrar verðbólgu“ á matarkörfuna, leiguna og mánaðarlegar afborganir fasteignalána sinna, sér í lagi þeim lánum sem tekin voru út undanfarin ár. Meðal þess hóps spáir yfirlýsing Seðlabankans „greiðsluerfiðleikum“.

Sé það aftur þýtt á mannamáli þá þýðir það að fólk neyðist til að umbreyta lánum sínum í verðtryggð lán, neyðist til að selja og flýja á leigumarkað, eða hreinlega endi inni á fjölskyldu, vinum eða á vergangi. Greiðsluerfiðleikar þýða nefnilega það eitt að viðkomandi hefur ekki efni á því að borga fyrir þak yfir höfuðið.

Greiðsluerfiðleikarnir eru þó víðar, því hin þráláta verðbólga sem Seðlabankinn segir þó enn réttlæta sultarstefnu sína með harkalega háum stýrivöxtum, gerir það að verkum að margir eiga erfitt með að ná endum saman og eiga fyrir matarkörfunni, svo ekki sé minnst á áhrifin á allt annað sem kostar líka peninga; lyf, tómstundir, þjónustu, vörur og menningu.

En fjármálakerfið stendur sterkt og því ber víst að fagna ef marka má yfirlýsinguna.

Í svari við spurningum á fundinum í morgun nefndi Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, stöðuna á fasteignamarkaðinum og sagði „töluverðan vöxt“ vera í byggingargeiranum, þó verð á fasteignamarkaði væru vissulega „tiltölulega há“.

Þar aftur tjáir Seðlabankastjóri sig með þeim hætti að af orðum hans mætti margt skilja, en samt í raun fátt. Það liggur fyrir í tilkynningu Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar frá því í febrúar að uppbygging íbúða á síðasta ári náði ekki nema 75% af lágmarksfjölda þeirra íbúða sem þörf var á. Byggðar voru 3079 íbúðir árið 2023 í stað þeirra 4000 sem rammasamningur fyrir árin 2023-2032 taldi vera lágmarksfjölda. Rammasamningurinn er áætlun bæði ríkis og sveitarfélaga um húsnæðisuppbyggingu.

Í sömu tilkynningu í febrúar sagði HMS vera skýr merki um allt að „75 prósenta samdrátt í íbúðauppbyggingu frá árinu 2022“.

Það verður því ekki séð að staðan á fasteignamarkaði lagist í bráð og orð seðlabankastjóra eru því í besta falli villandi framsetning á stöðunni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí