Jafnvel bankarnir komnir með nóg af Ásgeiri – „Búinn að koma sjálfum sér og hagkerfinu í sjálfheldu“

Viðtal við Jón Bjarka Bentsson, aðalhagfræðing Íslandsbanka, í kvöldfréttum RÚV  í gær virðist benda til þess að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri eigi fáa bandamenn eftir. Jón Bjarki var óvenju ómyrkur í máli og sagði bankarnir yrðu sjálfir að grípa til aðgerða. Hingað til hafa það helst verið bankarnir sem hafa grætt á stefnu Ásgeirs og Seðlabankans. Íslendingar almennt hafa þó borgað fyrir hana dýru verði. Marinó G. Njálsson segir viðtalið þýðingarmeira en líklega flestir áttuðu sig á í gærkvöldi.

„Í kvöldfréttum RÚV var talað við Jón Bjarka Bentsson, aðalhagfræðing Íslandsbanka, þar sem hann viðraði áhyggjur sínar af þróun efnahagsmála.  Ég hef lagt það í vana minn að leggja við hlustir, þegar Jón Bjarki er áhyggjufullur, og hlustaði því gaumgæfilega á orð hans.  Hann varaði við samdrætti (talaði ekki um kreppu, en lýsti grunnforsendu kreppu sem er samdráttur í þjóðarframleiðslu tvo ársfjórðunga í röð) og kallaði eftir því að vaxtalækkunarferlið hæfist strax,“ segir Marinó en hann sjálfur hefur hann spáð því sama um nokkurt skeið.

Fyrir þremur vikum sagði Marinó á Sprengisandi á Bylgjunni að allt benti til þess að samdráttur yrði á öðrum ársfjórðungi í kjölfar samdráttar á þeim fyrsta og ólíklegt væri að hagvöxtur á árinu færi yfir núllið. Þá hvatti hann til þess að byrjaði yrði að lækka vexti strax.

„Ég er svo sem bara gasprari utan úr bæ og því þarf Seðlabankinn ekkert að hlusta á mig.  Ég hef hins vegar átt það til að spá betur í spilin en flestir aðrir.  RÚV sá hins vegar ástæðu til að fá Jón Bjarka í viðtal á sunnudegi til að ræða málin, sem þýðir að einhverju hefur verið gaukað að fréttastofunni.  Hvað það er nákvæmlega, veit ég ekki.  Álit Jóns Bjarka var hins vegar afdráttarlaust og hef ég aldrei áður séð hann vera jafn berorðan í viðtali.  Hann gekk meira að segja svo langt að segja að bankarnir yrðu sjálfir að grípa til aðgerða,“ segir Marinó.

Hann segir Ásgeir kominn í stórkostlegan vanda, í raun í sjálfheldu. „Já, það stefnir allt í að Seðlabankinn hafi gengið of langt í að kæla hagkerfið.  Í viðtali mínu á Sprengisandi benti ég á, að almennt tekur það vaxtabreytingar seðlabanka 12-18 mánuði að ná virkni sinni.  Miðað við 12 mánaða töf á virkni, þá er hægt að færa rök fyrir því, að hækkun vaxta Seðlabankans í febrúar 2022 úr 2,00% í 2,75% hafi verið hækkunin sem stöðvaði vöxt verðbólgunnar ári síðar.  Síðan hafi það verið vaxtahækkunin í júní sama ár út 3,75% í 4,75% sem skilaði sér í lækkun verðbólgunnar ári síðar.  Allar vaxtahækkanir eftir það því raun virkað öfugt, þ.e. viðhaldið verðbólgunni í staðinn fyrir að lækka hana,“ segir Marinó og útskýrir enn fremur:

„Síðasta vaxtahækkun Seðlabanka Íslands, þ.e. úr 8,75% í 9,25%, átti sér stað í ágúst 2023.  Taki ár fyrir hana að virka og hagkerfið er þegar komið í samdrátt, þá getum við rétt ímyndað okkur hvað er fram undan.  Taki hins vegar 18 mánuði fyrir vaxtabreytinguna að virka, þá erum við að tala um, að vaxtabreyting úr 5,75% í 6,00% í október 2022 er sú sem er að draga hagkerfið í samdrátt.  Þá eiga áhrifin af öllum hinum vaxtabreytingunum eftir að koma fram.“

Hann segir að lokum að ef þessi sjálfhelda verði ekki  leyst, þá verði horft á allt sem þenslu. Öllum er þó ljóst að hjá því verði ekki komist, því ella mun Ísland standa frammi fyrir stærri vanda en verðbólgu. „Seðlabankinn er búinn að koma sjálfum sér og hagkerfinu í sjálfheldu.  Þolinmæði bankans eftir því að breytingar á vöxtum virki er engin.  Hann er ráðþrota.  Í landinu er mikill húsnæðisskortur, en byggingaframkvæmdir hræða stjórnendur bankans.  Það hræðir líka stjórnendur bankans, að fólk geti fengið lán til að kaupa húsnæði.  Menn skjálfa inn að beinum yfir framkvæmdum við úrsérgengið vegakerfi.  Sjá ofsjónum yfir því að bora eigi göng til að bæta umferðaröryggi.  Kenna 3,25% kauphækkunum til að bregðast við 10% verðbólgu um að bankinn sé ekki að ná árangri.  Ætli menn liggi veikir í fleti af hræðslu við Hvammsvirkjun og að ég tali nú ekki um allar hinar virkjanirnar sem eru á teikniborðinu.  Hef þó ekki heyrt orð frá bankanum yfir mörg hundruð milljarða framkvæmdum sem ýmist eru hafnar eða eru fyrirhugaðar í Þorlákshöfn og Hafnarfirði,“ segir Marinó og spyr einfaldlega:

„Hvernig eigum við að geta farið út einhverjar framkvæmdir um ókomna framtíð, ef Seðlabankinn sér þenslu í öllu sem er gert?“ 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí