ASÍ segir jákvæð skref stigin í húsnæðismálum

Kjaramál 18. mar 2024

Samhliða undirritun kjarasamninga á almenna vinnumarkaðinum kynntu stjórnvöld umfangsmikinn aðgerðapakka með það að markmiði að styðja við markmið samningsaðila um aukin kaupmátt, lækkun verðbólgu og vaxta.  

Áherslur aðgerðapakkans snúa einkum að því að styðja við barnafjölskyldur og bregðast við erfiðum aðstæðum á húsnæðismarkaði. Með pakkanum er ráðist í fjölbreyttar aðgerðir, m.a. með áframhaldandi fjármögnun almennra íbúðauppbyggingar, umbótum húsaleigulaga, auknum húsnæðisstuðningi. Aðgerðir koma til viðbótar við aðrar boðaðar aðgerðir stjórnvalda, en þar má nefna nýlega aðgerðaáætlun í húsnæðismálum 2024-20281.  

Áframhaldandi fjármögnun á uppbyggingu almenna íbúðakerfisins 

Á samningstímabilinu munu stjórnvöld leggja 7-9 milljarða til áframhaldandi uppbyggingar almenna íbúðakerfisins og hlutdeildarlána. Fjármunirnir styðja við byggingu um 1.000 íbúða á ári í almenna íbúðakerfinu. Almenna íbúðakerfið má rekja til kröfu verkalýðshreyfingarinnar um að komið verði á óhagnaðardrifnu íbúðakerfi að danskri fyrirmynd. Innan kerfisins byggir Bjarg íbúðafélag sem er óhagnaðardrifið leigufélag í eigu ASÍ og BSRB. Bjarg hefur nú þegar byggt tæplega þúsund íbúðir. Biðlisti eftir íbúðum hjá Bjargi hefur stækkað hratt en í dag eru yfir 3800 heimili á biðlista eftir íbúð.  

Þó aðgerðin tryggi fjármögnun mun skipta máli að sveitarfélög styðji við frekari uppbyggingu með því að tryggja byggingarhæfar lóðir. Lækkun vaxtastigs á samningstímanum mun jafnframt tryggja að Bjarg geti staðið við markmið um viðráðanlega leigu.  

Auknar heimildir lífeyrissjóða til íbúðauppbyggingar 

Í aðdraganda kjarasamninga 2022 var kallað eftir því að heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í uppbyggingu leiguhúsnæðis yrðu rýmkaðar. Birtist sú áhersla í yfirlýsingu stjórnvalda þann 12. desember 2022 vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þar kom fram að í samráði við aðila vinnumarkaðar yrðu skoðaðar leiðir til að auðvelda lífeyrissjóðum að koma að uppbyggingu á íbúðarhúsnæði til útleigu með því að rýmka heimildir þeirra til fjárfestinga í leigufélögum. Sama áhersla kom fram í yfirlýsingu stjórnvalda 7. mars 2024 þar sem sagði að „Lífeyrissjóðum verður auðveldað að koma að uppbyggingu á íbúðarhúsnæði til útleigu með því að rýmka heimildir þeirra til fjárfestinga í leigufélögum.“  

Drög að lögum varðandi þennan hluta yfirlýsinga ríkisstjórnar var til umsagnar á samráðsgátt stjórnvalda til 14. mars og skiluðu ASÍ og SA sameiginlegri umsögn. Í umsögninni var fagnað þeim breytingum sem frumvarpið boðar og stutt að það verði að lögum að gefinni breytingartillögu. 

Húsaleigulög verða endurskoðuð 

Endurskoðun á húsaleigulögum hefur verið með einum eða öðrum hætti á dagskrá síðan 2017. Ekki hefur náðst pólitísk samstaða innan ríkisstjórna um breytingar á lögunum þrátt fyrir ýmsar tillögur og útfærslur ýmissa nefnda. Nefnd um málið var skipuð 2022 og í tengslum við kjarasamninga í lok þess árs gerði verkalýðshreyfingin kröfu um aðkomu að nefndinni. Á vormánuðum 2023 náðist loks samstaða í hópnum um niðurstöðu sem felur í sér breytingar sem styrkja réttarstöðu leigjenda að töluverðu leyti.  

Í frumvarpinu er kveðið á um nýmæli sem eiga að auka fyrirsjáanleika um leiguverð á samningstíma og á milli tímabundinna samninga m.a. með því að ekki verði lengur heimilt að hafa sjálfvirk verðbreytingarákvæði í leigusamningum til 12 mánaða eða skemur.  

Jafnframt eru lagðar til mikilvægar breytingar sem eiga að tryggja betur virkni forgangsréttar leigjenda við lok tímabundins samnings með aukinni athafnaskyldu á leigusala og í raun er sett á uppsagnarvernd ótímabundinna samninga sem felur í sér að eingöngu sé heimilt að segja upp leigusamningum ef fyrir því eru málefnalegar ástæður.  

Frumvarpið gerir líka ráð fyrir meiri málshraða og auknu aðgengi aðila til að leita úrskurðar kærunefndar húsaleigumála um ákvörðun leiguverðs. Í framangreindu skyni verði jafnframt ráðist í fræðsluátak um húsaleigumál og eins segir í yfirlýsingu ríkisstjórnar að rekstrargrundvöllur Leigjendaaðstoðarinnar verði tryggður svo að allir leigjendur hafi kost á gjaldfrjálsri og vandaðri lögfræðiþjónustu ef upp koma ágreiningsmál. Síðast en ekki síst er kveðið á um óumdeilda skyldu leigusala til að skrá alla leigusamninga í gagnagrunn sem eigi að tryggja að upp byggist tölfræði og þekking um myndun og mótun leiguverðs með skýrari hætti en áður hefur verið.  

Fjórðungshækkun húsnæðisbóta 

Breytingar voru gerðar á húsnæðisstuðningi árið 2017 þegar kerfi húsaleigubóta var lagt niður og í stað þeirra teknar upp svokallaðar húsnæðisbætur. Við breytinguna voru framlög til kerfisins aukin ásamt því að óskertar bætur hækkuðu úr 22 þúsund kr. á mánuði í 31 þús. Á árunum 2017-2022 stóðu fjárhæðir húsnæðisbótakerfisins að mestu í stað þrátt fyrir að leiguverð hækkaði um meira en þriðjung á sama tímabili. Hækkun húsnæðisbóta hefur verið áhersluatriði í síðustu kjarasamningum og hækkuðu grunnbætur 25% á árunum 2022-2023.  

Húsnæðisbætur munu einnig taka hækkunum í kjölfar nýundirritaðra kjarasamninga og munu grunnfjárhæðir hækka um 25%. Til viðbótar verða greiddar húsnæðisbætur fyrir stærri heimili fyrir allt að 6 heimilismenn. Stærri fjölskyldur munu því fá umtalsverðar kjarabætur.  

Dæmi um ávinning  

Beinn ávinningur aðgerða stjórnvalda getur verið misjafn eftir hópum. Meginmarkmið samninga um lægri verðbólgu og lægra vaxtastig skapa gríðarlegan ábata fyrir samfélagið í heild sinni og leggja grunn að öflugri uppbyggingu á húsnæðismarkaði. 

Beinn stuðningur beinist í meira mæli að barnafjölskyldum og þeim sem eru á leigumarkaði eða glíma við háa vaxtabyrði.  

Fyrir einstætt foreldri með tvö börn og 750 þúsund krónur á mánuði skilar launahækkun um 24.375 krónum í mánaðartekjur. Hækkun húsnæðisbóta skilar 13.048 krónum, barnabætur hækka um 9.304 á mánuði og við bætist 9 þúsund krónur vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða. Markmið sveitarfélaga um lækkun gjaldskráa, t.d. fyrir barnafjölskyldur mun að auki draga úr útgjöldum. 

Fyrir hjón, með þrjú börn með sameiginlegar tekjur upp á 1400 þúsund er heildarávinningur yfir 100 þúsund krónur á mánuði. Um 45 þúsund kemur til vegna launahækkana, 25 þúsund vegna húsnæðisbóta en þar spilar inn í hækkun bóta fyrir stærri fjölskyldur. Um 12 þúsund verður til vegna hækkun barnabóta og gjaldfrjálsar skólamáltíðir skila fjölskyldunni um 18 þúsund krónum á mánuði.  

Sérstakur vaxtastuðningur 

Á árinu 2024 verða greiddir alls 7 milljarðar í sérstakan vaxtastuðning til heimila vegna hárrar vaxtabyrði. Við ákvörðun vaxtastuðnings verður horft til vaxtagjalda 2023 og mun stuðningurinn verða greiddur til viðbótar við almennar vaxtabætur. Aðgerðin er hugsuð sem einskiptisaðgerð gangi markmið samnings um lækkandi vexti eftir. Hámark sérstaks vaxtastuðnings mun nema 150.000 kr. fyrir einstakling, 200.000 fyrir einstæða foreldra og 250.000 fyrir sambúðarfólk að teknu tilliti til skerðinga vegna tekna og eigna. Gert er ráð fyrir að sérstakur vaxtastuðningur greiðist beint inn á höfuðstól húsnæðisláns en heimilt verði að óska eftir að nýta hann til lækkunar á afborgunum í tiltekinn tíma. Sérstakur vaxtastuðningur kemur til afgreiðslu í tengslum við álagningu í maí 2024.  

Húsnæðislánakerfið verður endurskoðað 

Að kröfu verkalýðshreyfingarinnar verður skipaður starfshópur sem leggja mun mat á húsnæðislánakerfið á Íslandi. Verkalýðshreyfingin hefur um árabil kallað eftir umbótum á húsnæðislánakerfinu með það að markmiði draga úr vaxtabyrði og auka gagnsæi. Þá er jafnframt stefnt að því að leggja mat á fyrirkomulag húsnæðisstuðnings bæði eigenda og leigjenda.

Frétt af vef ASÍ.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí