„Enginn vafi í mínum huga á því að úrslit Söngvakeppninnar eru ómerk“

Það er óhætt að segja að Söngvakeppni RÚV hefur aldrei valdið meiri sundrungi og úlfúð meðal þjóðarinnar. Keppnin var gífurlega umdeild áður en nokkurt lag var sungið, en framkvæmd á kosningu hefur síður en svo lægt þær öldur. Klúður við framkvæmd kosninga virðist fyrst og fremst hafa bitnað á Bashar Murad en lítið sem ekkert á Heru Björku. Með þeim afleiðingum að Hera sigrað. Sá sigur var þó naumur, Hera hlaut 100.835 atkvæði en Bashar Murad 97.495 atkvæði. Þrátt fyrir yfirlýsingar RÚV um að þessari niðurstöðu verði ekki haggað, þá eru margir á því máli að kosningin sé einfaldlega ekki lögmæt.

Sigurður Hólm Gunnarsson, oft kenndur við félagið Siðmennt, er þar á meðal. Hann fer ítarlega yfir málið í pistli sem hann birtir á Facebook, en hann kemst að þeirri niðurstöðu úrslit söngvakeppninnar séu einfaldlega ómerk. Hann segist sjálfur ekki hafa neinn áhuga á keppninni og hvorki halda með Bashar né Heru.

„Svo það sé tekið fram hef ég takmarkaðan áhuga á söngvakeppninni, og engan áhuga í þessu ömurlega stríðsástandi. Ég kaus ekki og horfði ekki á úrslitin. Mér finnst Hera líka frábær söngvari og nákvæmlega ekkert á móti henni. Mér fannst öll lögin frekar slöpp, en það er bara minn smekkur. Hér er ég bara að velta fyrir mér upplýsingum sem koma frá RÚV, sem hélt umræddra keppni,“ segir Sigurður.

Hann telur að þessar upplýsingar sýni að úrslitin séu ómerk. „„Eftir fréttir og Kastljós RÚV í kvöld er enginn vafi í mínum huga á því að úrslit söngvakeppninnar eru ómerk. Nokkrir augljósir og viðurkenndir gallar á kosningunni staðfesta þetta. Þetta er alveg skýrt út frá staðreyndum. Sama hvort fólk hefur áhuga á þessari keppni og hvort fólk hafi skoðun á þeim flytjendum sem þar kepptu til úrslita,“ skrifar Sigurður og telur því næst helstu staðreyndir málsins:

„A) Bashar sigraði fyrri kosningar með yfirburðum:

1. Bashar: 47.663 atkvæði (þar af atkvæði almennings: 26.359)

2. Hera Björk: 32.067 atkvæði (þar af atkvæði almennings: 15.406)

B) Í einvíginu voru niðurstöður þessar:

1. Hera Björk: 100.835 atkvæði (þar af atkvæði almennings: 68.768)

2. Bashar Murad: 97.495 atkvæði (þar af atkvæði almennings: 49.832)

Þetta þýðir að, ef treysta má kosninganiðurstöðum (sem ekki er hægt að gera eins og ég kem að síðar), þá fékk Bashar aðeins 23.473 fleiri atkvæði frá almenningi í einvíginu (1,9 x meira en í fyrri kosningu) á meðan Hera fékk 53.362 atkvæði í viðbót (4,5 x meira en í fyrri kosningu). Þetta eitt og sér verður að teljast frekar ólíkleg, eða í það minnsta óvenjuleg niðurstaða.

En gefum okkur samt að þessi ólíklega niðurstaða sé rétt og að heildarniðurstaða atkvæða almennings + dómara hafi verið þessi:

1. Hera Björk: 100.835 atkvæði

2. Bashar Murad: 97.495 atkvæði

Þarna munar 3.340 atkvæðum.“

Sigurður segir að nauðsynlegt sé að hafa tvö atriði í huga.

„C) Vitað er og staðfest af RÚV að atkvæði greidd Bashar í appi RÚV fóru, vegna mistaka, til Heru og atkvæði Heru eitthvað annað (ekki til Bashar). (Heimild: Kastljós RÚV 3. mars 2024)

Þetta þýðir að það hefur ekki þurft mikið meira en um 85 einstaklinga sem kusu 20 sinnum (eins og mátti víst og margir gerðu) í viðbót til að kjósa Bashar þannig að hann myndi sigra. (Eða 170 einstaklinga sem kusu 10 sinnum o.s.frv.). Þetta er augljóst því 1700 x 2 (Hera fékk atkvæði en Bashar ekki þegar fólk reyndi að kjósa hinn síðarnefnda, vegna galla í forriti) er 3400 atkvæði, sem er meira en vantaði upp á. Líklega missti Hera einhver atkvæði á móti en þó ekki tvöfalt því atkvæði til hennar fóru ekki vegna mistaka til Bashar.

D) Það er líka vitað og staðfest að margir sem reyndu að hringja til að kjósa Bashar fengu upp meldingu að um SPAM símtal væri að ræða. Líka virðist staðfest að þetta gerðist BARA þegar hringt var til að kjósa Bashar, en ekki þegar Hera var kosin. Þó er fullyrt að atkvæðin hafi farið í gegn.“

Sigurður segir að ekki sé hægt að túlka þetta öðru vísi en margir hefðu kosið Bashar oftar við eðlilegar aðstæður. „Það BREYTIR ÞVÍ ÞÓ EKKI að augljóst hlýtur að vera að margir hafi túlkað SPAM skilaboðin þannig að atkvæði þeirra væri ekki að ná í gegn og því afar líklegt að kjósendur hafi ekki hringt oftar eða eins oft til að kjósa sinn fulltrúa. Að þessu sögðu er það mín niðurstaða út frá einföldum staðreyndum að það er alls ekki hafið yfir vafa að úrslitin sem kynnt voru í þessari söngvakeppni hafi verið rétt. Því getur það fólk sem ber ábyrgð á keppninni ekki fullyrt að ofangreindir gallar hafi “ekki haft áhrif á úrslit keppninnar.”,“ segir Sigurður.        

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí