Mikil kvíði virðist vera meðal sumra Grindvíkinga ef marka má nafnlausa færslu innan Facebook-hóp þeirra. Þar segist einn Grindvíkingur upplifa ofboðslegar áhyggjur, örvæntingu og einfaldlega þreytu vegna ástandsins. Um helgina fór enn og aftur að gjósa í nágrenni við bæinn, svo ekki er hægt að segja annað en að tilfinningar Grindvíksins séu skiljanlegar.
„Svo mikill drungi. Líður alla daga eins og ég sé að drukkna. Rétt næ að halda nefinu uppúr ef ég stend á tánum. Hef samt enga góða ástæðu gegn því að setjast bara á botninn. Játa sig sigraða. Losna þá kannski við þessa ofboðslegu hræðslu, áhyggjur , örvæntingu, þreytu og líkamlega verki. Uppgjöf á öllum sviðum. Er eins og sjálfræðissvipt barn sem hef enga stjórn á neinu sem snýr að eigin lífi. Þarf samt að muna að vera þakklát, fullt af fólki í erfiðari stöðu en ég. Fólk sem er einna en ég. Fólk sem á engan að,“ segir þessi nafnlausi Grindvíkingur og heldur áfram:
„Svo koma slæmu dagarnir, grátköstin. Fjölskyldan þykist ekki sjá því fjölskyldan er ekkert sérstaklega góð í að ræða hluti. Þegar þeim finnst nóg komið er dæst og sagt jæja og fólk finnur sér eitthvað annað að gera, annarsstaðar. Ég finn að þau eru fyrir lifandi löngu orðin uppgefin líka. Það er meira en að segja það að fá fullorðið barn sitt aftur í fangið. En hvað annað er hægt að gera.“
Áhyggjurnar snúast að mestu um hvort peningarnir komi frá ríkinu eða ekki. „Kannski koma peningarnir frá ríkinu í næsta mánuði. Ekki að það verði eitthvað eftir á mínu verðbili, þrátt fyrir að ég tvöfaldi skuldsetninguna. 85 fm, 3ja herbergja íbúðin mín á jarðhæð, með geymslu og þvottahúsi innan íbúðar, endar sennilega sem 46fm 2ja herbergja blokkaríbúð á 3ju hæð, í liftulausu húsi og sameiginlegt þvottahús í kjallara. En já þakklæti. Ef ég fæ blæðandi magasár og dey á meðan èg velti fyrir mér kostum og göllum við að fara til læknis, þá mun ég eiga fyrir útförinni. Þegar peningurinn kemur frá ríkinu…“