Brynjar Níelsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem verið hefur gagnrýninn á hlutverk og rekstur Ríkisútvarpsins, segir að ef tillögur starfshóps menningarráðherra gangi eftir og Rúv verði tekið af auglýsingamarkaði sé það skref í rétta átt.
„Skýrslan er ágæt samantekt,“ segir Brynjar um vinnu starfshópsins. „Þetta er bara pólitísk ákvörðun í mínum huga. Ætla menn að halda þessu óbreyttu og láta einkamiðla deyja hægt og rólega eða fjármagna þá líka af skattfé?“
Margoft hefur verið til umræðu að einkareknir fjölmiðlar hér á landi eiga erfitt með að keppa við auglýsingadeild Ríkisútvarpsins. Rúv sogar til sín níu milljarða króna þetta árið, annars vegar með föstum framlögum frá landsmönnum í gegnum nefskatt, hins vegar með auglýsingum.
„Eina vitið að mínu mati væri að gera RÚV bara að menningarstofnun með skýrt skilgreint hlutverk fyrir annað en það sem aðrir miðlar sinna og fjármagn til hennar væri ákveðið í fjárlögum,“ segir Brynjar.
„Þá þarf að breyta lögunum um RÚV og skilgreina hlutverk þess upp á nýtt. Það er eina leiðin til að einkareknir miðlar geti rekið sig án fjármagns frá skattgreiðendum.“
Brynjar nefnir svo til sögunnar nokkuð róttækna lausn – sennilega meira í gríni en alvöru:
„Kannski er bara einfaldast að setja aftur á einkarétt Ríkisútvarpsins á ljósvakamiðlum,“ segir hann. „Aðrir geta þá bara leikið sér með prentmiðla og samfélagsmiðla svo fremi að það verði ekki ljósvakamiðlun á þeim,“ segir Brynjar.