Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var að birta óvenjulega færslu á facebook með mynd af henni og eiginmanni, Gunnari Sigvaldasyni. Alla jafna heldur Katrín honum mjög utan sviðsljóssins og er myndbirtingin og textinn með færslunni talinn til marks um að Katrín horfi til Bessastaða.
Katrín segir í færslu sinni að í ár séu tuttugu ár síðan hún kynntist þessum manni sem á einmitt afmæli í dag.
„Við höfum tekist á síðan um stórt og smátt en almennt höfum við það nokkuð gott saman. Þetta er samt ekki tóm gleði og viðhorf okkar eru vægast sagt ólík til ýmissa hluta. Og við erum með ansi mismunandi hæfileika. Hann er til dæmis borgarmaður sem ratar hvar sem hann kemur í útlöndum á meðan ég geng um með hausinn grafinn ofan í pappírskort (sem honum finnst mjög mikil 20. öld) og er algjörlega áttavillt,“ skrifar Katrín.
„Hér heima snýst taflið við þar sem ég er jafn áttavillt en hef lagt flest veganúmer á minnið á mörgum ferðum. Man eftir einu sumarfríi þar sem ég var að tala við Þórólf sóttvarnalækni í síma (og var með hugann algjörlega við símtalið) og minn maður keyrði langleiðina niður í Fjarðabyggð þegar leiðin lá á Borgarfjörð eystri. En þetta heitir að vega hvort annað upp!“
Hvort spámenn hafa rétt fyrir sér um að færslan sé fyrsti í forsetaframboði mun koma á daginn en sannarlega þurfa forsetaefni að kynna maka sína fyrir kjósendum, enda hafa margir makar forseta haft stórt hlutverk.